16.5.2008 | 16:55
10 Klassískar Flíkur
Klassískar flíkur sem eru áreiðanlegur er eitthvað sem allir ættu að eiga í fataskápnum. Hugsaðu þær sem beinagrindina og svo byggirðu í kringum hana. Það er ekkert gaman við klæðnað sem er það klassískur að hann verður leiðinlegur, það er að segja þegar fólk klæðist engu öðru en öruggum valkostum. Það er hinsvegar nauðsynlegt að eiga grunnhlutina til að geta klæðst með því sem er eftirtektarvert. Klassískar flíkur eru eitthvað sem standa af sér tískustrauma og árafjölda. Þær ganga frá degi til kvölds, milli árstíða og í hvaða heimshluta sem er.
Casual
1. Stuttermabolir: Persónulega finns mér V-hálsmen klassískara, en U-laga er einnig í lagi svo lengi sem það er í fallegum boga. Gott er að eiga boli í nokkrum stærðum, þ.e.a.s. bæði passlega stóra og svo aðeins víðari og einnig í nokkrum litum. Sjálf held ég mig við svartan, hvítan og gráan þar sem þeir passa við nánast allt. En svo er hægt að bæta við litum eftir árstíðum og litatrendum hverju sinni.
2. Einfaldar gollur: Prjónapeysur úr mjög fínu efni eða gollur eiga flestir í skápnum. Þær er hægt að fá í allmörgum útgáfum, allt frá stuttum og aðsniðnum til víðra sniða í svokölluðu afa-sniði. Það sem er best við gollur er hvað hægt er að nota þær við ólík tilefni. Þær virka vel við gallabuxur á casual degi, við vinnufatnað og svo sem cover up við kjóla. Þess vegna er best að eiga nokkra liti og útgáfur. Það er algjör óþarfi að eyða miklum peningum í gollur en þar sem fjöldaframleitt fínt prjónaefni getur hnökrað, er best að borga aðeins meira fyrir allavega eina til að nota fínt.
3. Gallabuxur: Klassískt par af gallabuxum sem henta þínum vexti fullkomlega. Til að þær gangi sem lengst er dökkt óþvegið efni best. Það er ekkert endilega eitt snið betra en annað, það er svo misjafnt hvað klæðir hverjum og einum, en mjög útvíðar skálmar og níðþröngar buxur ætti að varast þegar maður leitar að klassísku pari. Ef gallabuxur eru eitt af þínum uppáhaldsflíkum og þú ert ekki nýjungagjörn í þeim efnum, er best að kaupa tvennar þegar þú finnur hið fullkomna par. Margar verslunarkeðjur framleiða hinar bestu gallabuxur, en það ætti þó alltaf að pæla í gæði efnisins.
4. Dagkjólar: Kjólar í þægilegum efnum, sem virka kannski í vinnu en ekkert fínna en það. Við erum að tala um mjúk efni og basic liti eins og svartan og gráan. Það eru ýmis snið sem geta verið klassísk, en shift kjólarnir eru hentugastir. Þeir eru beinir í sniðinu og ná allt frá miðjum lærum til hnjáa í sídd. Þeir geta verið stutterma eða ermalausir og ættu að ganga óháð árstíð.
Fínni tilefni
5. Svartur kjóll: Orðið Little Black Dress (LBD) kannast flestir við sem lesa erlend tískutímarit, en hann er talinn vera eitthvað sem allar konur ættu að eiga í skápnum. Svartur kjóll í klassísku sniði sem alltaf er hægt að grípa í. Hann er öruggt val og virkar vel við hin ýmsu tilefni. Það besta er að þar sem kjóllinn er ekki aðalatriðið, er hægt að leika sér meira með skó, aukahluti og skart. Það segir sig sjálft að ef kjóllinn á að vera nothæfur og flottur í fleiri ár er best að gefa sér tíma í að finna hið besta snið sem hentar sínum vexti. Svo er alltaf hægt að bæta við ódýrari í öðrum útgáfum.
6. Svartar sokkabuxur: Húðlitaðar sokkabuxur ganga nánast aldrei. Þær eru einfaldlega ekki smart. Eins og allir vita hafa leggings verið vinsælur síðustu tvö ár eða svo og búið að vera mikið trend. Það er spurning hvenær sá straumur fer að dvína og hafa þær nú þegar náð sínu hámarki. Svartar sokkabuxur, hinsvegar, eru og verða alltaf klassískar. Síðasta haust sáust sokkabuxur í allskyns útgáfum og urðu mikið trend, en svartar eru samt alltaf bestar.
7. Svartar/Gráar buxur: Ganga vel sem vinnufatnaður, en einnig í fínni tilefni og þá með kvenlegri blússu, hugsanlega í fallegum lit. Þröng snið eru ekki klassísk og heldur ekki mjög víðar. Millivegurinn er bestur þar sem sniðið er örlítið vítt en þær eru samt passlegar á mjöðmunum.
8. Blazer jakki: Klassískur blazer jakki er svartur, þótt hann komi alltaf í fleiri litum hvert ár er það svartur sem heldur sér í tímans tönn. Hann virkar við gallabuxur, við svartar buxur sem dragt, við kjóla og pils. Sem sagt við nánast allt.
9. Hvít skyrta: Mun alltaf vera klassísk. Hún skal vera svolítið innblásin af karlmannsniði, til að vera sem tímalausust, en samt halda kvenleika og þynþokka.
10. Trench kápa: Þessi tegund af kápu hefur verið dýrkuð í meira en 70 ár af bæði konum og körlum. Hún er algjörlega tímalaus og hentar nánast hvaða vexti sem er. Þótt hún sé klassísk skortir hana ekki fágun og glamúr. Hinn klassíski litur á trench kápum, beige, er að mínu mati flottastur.
Hvað aukahluti varðar, finnst mér ekki endilega einhverjir einir klassískari en aðrir. Það er náttúrulega alltaf svarta taskan sem er passlega stór til að geyma allt nauðsynlegt og ónauðsynlegt. Flatbotna ballerínuskór og plain svartir háhæla skór eru einnig eign sem flestir ættu að eiga. Það segir sig samt sjálft hvað aukahlutatíska breytist hratt, að aukahlutir á borð við skó og töskur er það sem meirihluta stórra tískuhúsa er að fá inn helstu tekjurnar. Fólk einfaldlega kaupir sér miklu oftar nýjar töskur, skó og skart til að krydda fatnaðinn.
Athugið að þetta er einungis viðmiðun og hugmyndir. Það fer eftir atvinnu, lífstíl og stíl hvað þú álítur vera klassískar flíkur.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2008 | 19:16
Stílistar & Stíll Stjarnanna
Til eru tvær tegundir af stílistum; persónulegur stílisti og tískustílisti. Það eru hinn fyrrnefndi hópur sem ég mun fjalla um að þessu sinni. Eins og nafnið bendir til einbeita þessar gerðir stílista sér að því að aðstoða og veita sína þjónustu til einstaklinga. Þeir hjálpa fólki við innkaup á tískuvörum, samsetningu og jafnvel endurskipulagningu fataskápsins til að auðvelda vinnuna við að klæða sig.
Þegar maður hugsar um tískuvarning og auðæfi, leggur saman tvo og tvo, þá gæti maður svo sem alveg ímyndað sér að það væri ekki svo erfitt starf að stílisera sig sjálfur. Ef fólk á á annað borð peningana til að kaupa fullt af dýrum fatnaði sem á að vera það nýjasta og í tísku ætti viðkomandi þ.a.l. að líta vel út. En eins og flestir vita geta peningar keypt tísku en ekki stíl. Nema maður sé ríkur. Þá kaupa peningar stílista.
Margar stjörnur sem viðurkenna ekki að nota þjónustu stílista, gera það í raun og veru. Samkvæmt heimildum vel þekkts stjörnustílista treysta u.þ.b. 95 % af helstu Hollywood-stjörnum á stílista. Það eru jafnvel oft kvikmyndaver, sjónvarpsstöðvar og umboðsskrifstofur tónlistarmanna sem taka við reikningum, sem getur verið $5000 dollarar á dag, eða um 400.000 krónur.
Þótt flestar stjörnur kalli einungis til stílista þegar stærri viðburðir liggja fyrir, hafa margar nú orðið stílista reiðubúna allan ársins hring. Þá dressa þeir viðskiptavininn ekki einungis upp fyrir rauða dregilinn heldur einnig fyrir hin daglegu störf og útréttingar. Þá sér hann að mestu eða alfarið um fatainnkaup, tekur fataskápinn í gegn mánaðarlega eða eftir árstíðum og stjarnan sjálf gerir ekkert nema kannski að taka lokaákvarðanir. Þannig næst þegar þú sérð einhverja stjörnuna líta óaðfinnanlega út við matarinnkaupin og hugsar með þér hvað hún hafi nú flottan stíl, eru miklar líkur á að hún hafi fengið hjálp við verkið. Stjörnustílistinn Rob Zangardi segist stanslaust vera að versla og fá lánuð föt fyrir sína kúnna svo þeir eigi alltaf eitthvað til að fara í, hann sýnir þeim svo bestu samsetningarnar svo þær þurfi ekki að hringja í hann áður en þær fara út úr húsi.
Þótt hver stílisti hafi sinn persónulega stíl felast hæfileikar þeirra í því að vinna með líkamsvöxt og lífstíl hvers viðskiptavinar fyrir sig. Þeir þurfa að kunna að fara eftir því hvað stjarnan hefur upp á að bjóða. Þannig er ákveðinn prósess þegar ný stjarna kemur í verk stílista, að móta stílinn og ákveða hvaða leið á að fara. Nicole Chavez sem sér m.a. um stíl Kristen Bell og Rachel Bilson segist nota stílinn sem stjarnan hefur fyrir og betrumbæta hann svo. Hver og einn hefur sinn persónuleika og það er það sem hún reynir að ná fram. Þar sem stjörnurnar eru myndaðar oft af paparazzi ljósmyndum geta þær ekki klæðst sama hlutnum oft og því sýni hún kúnnum sínum leið til að endurtaka hluti á öðruvísi hátt. Stílisti Natalie Portman og Michelle Williams skoðar vel tískuna og tískusýningar til að geta frætt þær um nýjustu trendin. Fyrir stærstu viðburðina eins og Óskarinn, þegar stjörnurnar prýða draumkenndir síðkjólar, hugsar hún útlitið svolítið eins og hún væri að stílisera tískumyndatöku hún býr til ákveðna mynd og fantasíu í höfðinu af því sem hún vill að útkoman verði.
Ég hef valið 9 frægar konur sem að mínu mati hafa mjög flottan stíl hvort sem þær hafa stílista eða ekki. Það eru náttúrulega alveg helling af vel klæddum frægum konum en mér finnst þessar standa úr, bæði hvað varðar stíl á rauða dreglinum, sem og í casual fatnaði í daglegu lífi. Ég hef ekki valið ungstirni á borð við Nicole Richie, Rachel Bilson, Olsen systur o.s.frv. ekki af því þær eru ekki með flottan stíl, heldur væri það of mikil upptalning og mér finnst þær svolítið elta trend. Enda myndi mig langa til að fjalla sér um hverja og eina því þær sjást oftar en ekki virkilega smart og hægt að fá góðar hugmyndir frá mörgum af þeim. Þær sem ég hef valið eru allt frá aldrinum 25 til 43 ára og ég valdi frekar þær sem eru eldri þar sem meiri líkur á að þær hafi sett sér sinn stíl og sín trademark.
Stíll | Breytt 10.10.2008 kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 18:46
Ráð til að gera stílinn persónulegri
Það getur verið erfitt að gera stílinn sinn persónulegan þegar maður er undir áhrifum frá svipuðum fjölmiðlum, verslar fjöldaframleiddar flíkur og hefur kannski ekki hugrekki til að sýna sinn eigin stíl. Ég ætla því að gefa nokkur góð ráð, bæði hvernig sé best að fá innblástur, en einnig hvernig sé best að versla í verslunarkeðjum en persónugera stílinn í leiðinni.
Innblástur
- Fyrir það fyrsta, þá er nauðsynlegt til að ætla að hafa sinn eigin stíl, að skoða stílinn hjá öðrum. Fá innblástur frá fólkinu á götunni. Hægt er að fara inn á sérstakar götustíls bloggsíður, þar sem venjulegt fólk sem ljósmyndari telur hafa góðan stíl er myndað. Góðar síður er t.d. frá Stokkhólmi, New York og London.
- Fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á tísku er sniðugt að skoða sumar- og haustlínur hönnuða á netinu. Sýningar fyrir sumar næsta árs eru í september/október og sýningar fyrir komandi vetur eru í febrúar/mars. Góðar síður eru Style.com og Elle.com. Hægt er að fá góðar hugmyndir frá hönnuðunum og einnig hefur maður betri sens fyrir komandi trendum.
- Ríka og fræga fólkið hafa góðan aðgang að hönnunarmerkjum og tískusýningum og því oftast með puttan á púlsinum hvað tískuna varðar. Ef stjarnan sjálf hefur ekki nógu mikið tískuvit, er mjög líklegt að hún hafi stílista í vinnu. Hægt er að fá góðar hugmyndir frá fræga fólkinu, ekki endilega bara í sínu fínasta pússi á rauða dreglinum, heldur einnig dagsdaglega og þá geta stjörnubloggsíður komið að góðum notum.
- Fyrir þá sem hafa tíma og áhuga getur verið gott að rífa úr tímaritum myndir af því sem gæti veitt manni innblástur. Hægt er að hagræða því saman í svokallað moodboard, og skipta reglulega út myndum. Hönnuðir nota þessa aðferð til að skilgreina innblástur sinn fyrir nýja línu, en þetta er einnig góð aðferð til að sjá hverju maður er að leitast eftir í sínum eigin persónulega stíl.
- Ef allt það nýjasta og ferskasta bregst, getur verið gott að fá innblástur úr gömlum bíómyndum sem skarta kvikmyndastjörnum fyrri tíma á borð við Audrey Hepburn, Grace Kelly og Brigitte Bardot. Annað sem tengist ekki tísku en hefur samt ómetanleg áhrif á hana er tónlist. Allt frá tónlistarfólki á borð við Madonnu til Nirvana. Ef það er eitthvað annað sem hægt er að fá innblástur frá eru það önnur lönd og aðrir menningarheimar. Að fylgjast með hvernig fólk klæðist í mismunandi löndum og borgum er nauðsynlegt til að fá annan sens á hlutina. Hvort sem þú tekur það með þér heim eða ekki.
Verslanir
- Mjög gott er að vera búin að skoða hverju maður er að leita af. Þó skal varast að hugsa of mikið um tískustrauma, þeir geta oft verið skammlífir og eina og sama trendið virkar ekki alltaf fyrir alla líkamsvexti.
- Á hálfsárs til árs fresti er gott að fara í gegnum fataskápinn, þá helst áður en maður verslar sumar og vetrarfötin, hverju má henda, hvað á að geyma og hvað vantar.
- Besti tíminn til að versla er fyrir hádegi, en bæði er minnst að gera þá og einnig er fatnaðurinn vel raðaður og aðgengilegur. Þannig er meira næði, minna fólk, starfsfólkið frekar reiðubúið að aðstoða og fötin ekki í hrúgum eða liggjandi á gólfinu. Mestu örtraðirnar eru um helgar, þannig að ef ekki gefst tími til að fara í verslunarleiðangur fyrir hádegi á virkum dögum, virkar seinni parturinn alveg eins ágætlega.
- Flestar stærri verslunarkeðjur fá nýjar sendingar vikulega (stundum nokkrum sinnum í viku). Því er gott að spyrjast fyrir um í sínum uppáhalds verslunum hvenær nýjar sendingar koma inn, þá er hægt að tryggja sér það besta strax. Í vinsælum verslunum er gott rennsli á vörum, þannig ef maður sér eitthvað er oftast best að næla sér í það þá og þar. Taktu líka vel eftir því þegar stórar keðjur fá línur sem koma í fáum eintökum, þá eru minni líkur á að hitta einhvern í eins. Vertu viss um að skoða gæðin og ekki kaupa hluti bara af því þeir eru ódýrir. Þótt oft sé hægt að fá góð kaup á útsölum, er þar oft einungis að finna restar sem enginn hefur viljað.
- Í minni hönnunarverslunum koma sendingarnar ekki eins oft, en samt getur verið gott að hafa á hreinu hvenær stærstu sendingarnar og sumar/vetrarlínurnar koma. Þar sem minna rennsli er á vörum í þessum verslunum er hægt að koma oftar til að skoða og hugsa sig um áður en fjárfest er í dýrri flík. Einnig er gott ráð að grennslast fyrir um helstu merki og hönnuði og skoða línurnar á netinu áður en þær koma í verslunina, til að fá fíling fyrir hverju má búast. Stundum getur verið gott að vingast við starfsfólkið þannig það geti látið mann vita hvenær nýjar vörur koma.
Í klukkuátt úr efri röð frá vinstri: Götustílssíður gefa góðar hugmyndir úr raunveruleikanum / Gamlar kvikmyndir sem prýða kvikmyndastjörnur á borð við Audrey Hepburn er góður innblástur / Besti tíminn fyrir verslanaleiðangur er fyrir hádegi á virkum dögum / Nauðsynlegt er að endurskipuleggja fataskápinn reglulega / Í hönnunarverslunum fær maður persónulegri þjónustu og þar sem vanalega er minna rennsli á vörum er hægt að taka sér meiri tíma í að ákveða sig áður en maður fjárfestir í dýrri flík / Að skoða stjörnurnar í casual dagklæðnaði gefur góðan innblástur / Aðrir menningarheimar geta oft gefið hugmyndir og látið mann prófa óvenjulega hluti / Hljómsveitin Nirvana er talin hafa byrjað hið vinsæla 'grunge' trend.
Ráð | Breytt 10.10.2008 kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2008 | 22:19
Persónulegur Stíll
Það er nú einu sinni þannig að allt fólk klæðist. Frumtilgangur fatnaðar er fyrst og fremst að hylja líkamann - föt eru samt svo miklu meira en það. Við notum fatnað til að tjá persónuleika okkar utan frá. Það er það fyrsta sem annað fólk sér. Útlitið skiptir svo miklu máli á það hvernig aðrir sjá okkur. Af hverju ekki að sýna hver maður er með fötum og aukahlutum?
Persónulegur stíll er það að maður skapar sinn eigin stíl útfrá sínum persónuleika og lífstíl. Það að gefa hugsun í hverju maður klæðist og hvað klæðir sinn líkama. Allir hafa sinn smekk á því hvað þeim finnst flott og hvað ekki. Það er þó mikilvægt að sækja innblástur fyrir fatnaði frá öðru fólki, hönnuðum, umhverfinu og tískustraumum líðandi stundar.
Það eru nokkur atriði sem maður þarf að hafa í huga þegar maður hugsar um sinn persónulega stíl. Gott er að reyna að finna út hvað maður vill segja með fatnaðinum og hvað einkennir persónaleikann. Hvernig er hægt að sýna persónuleikann í gegnum sinn stíl. Einnig spila inní þættir eins og lífsstíll, misjöfn tilefni og veður. Það sem ber að varast er að reyna að þóknast öðrum í klæðaburði það sem við höldum að sé réttast fyrir eitthað ákveðið tilefni. Útkoman er að stíllinn er ekki lengur svo persónulegur.
Fólkið sem er með hvað flottasta persónulega stílinn er það sem fylgist með því sem er að gerast, tekur frá tískunni og fólkinu í kringum sig og nýtir sér það til að skapa sinn stíl. Það blandar saman dýrum og ódýrum hlutum og gefur hugsun í útlitið án þess þó að ofhugsa hlutina. Þegar öllu er á botninn hvolft, veit það hvað það vill það er eitt það mikilvægasta þegar hugsað er um stíl.
Það sem vert er að muna er að allir hafa sinn smekk og sínar skoðanir. Hvort sem öðru fólki finnist smekkur annarra ljótur eða flottur, þá er persónuleg vellíðan mikilvægust að vera ánægður með fötin og sjálfan sig.
Klikkið á myndina einu sinni og svo aftur í næsta glugga til að sjá hana í sinni stærstu mynd og til að lesa textann
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2008 | 17:00
Undirfataáhrif
Þar sem mikið er um rómantík fyrir sumarið voru undirfataáhrif áberandi á sýningarpöllunum. Kvenleg efni eins og silki, siffon og blúnda voru notuð á föt sem minntu helst á undirföt og náttföt. Þau voru þó ekki hugsuð sem slík, heldur frekar til að gefa öðruvísi tvist við hversdagslegri fatnað. Þannig er til dæmis hægt að klæðast fallegum undirfötum undir gegnsæja blússu, en gegnsæ efni eru eitt af stórum trendum sumarsins.
Það getur verið erfitt að klæðast þessu trendi án þess að sýna of mikið, og því skal hafa í huga að það byggist á áhrifum frá undirfötum og liggur því frekar mikið í smáatriðum. Því er best að vera uppdressaður frekar en að líta út eins og maður sé að fara í háttinn og klæðast rokkuðum aukahlutum við til að spila á móti rómantíkinni og væmninni. Þetta er trend sem hægt er að leika sér með og prófa sig svolítið áfram.
Trend | Breytt 10.10.2008 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2008 | 18:56
Maxi kjólar
Maxi kjólar verða áfram vinsælir þetta sumarið. Bæði sýndu hönnuður þá á sumarsýningum fyrir þetta árið og einnig eru stjörnurnar farnar að klæðast flottum og sumarlegum síðum kjólum. Maxi kjólar eru skósíðir kjólar í fljótandi og þægilegum efnum og geta verið bæði með hlýrum eða hlýralausir. Þeir koma oftast í fallegum munstrum allt frá hippalegum blómaefnum til afríska tribal munstra. Einnig eru bjartir litir vinsælir og þá er þeim oft blandað saman.
Þótt flestir halda að maður þurfi að vera í fyrirsætuhæð til að klæðast slíkum kjólum er það ekki raunin. Langt í frá hafa smávaxnar Hollywood stjörnur klæðst þeim eins og Eva Longoria, Mary-Kate Olsen, Rachel Bilson og Nicole Richie, sem hefur sést í þeim oftar en einu sinni bæði síðasta sumar og einnig nú í vor. Þeir hafa einnig verið vinsælir á meðgöngu, en áðurnefnd Nicole klæddist nokkrum meðan hún var ólétt og nú hafa Jessica Alba og Gwen Stefani einnig sést í þægilegum maxi kjólum. Þeir virðast lengja frekar en stytta en það þarf samt að passa að kjóllin gleypi ekki þann sem klæðist honum.
Það sem er svo æðislegt við maxi kjólana er hvað þeir eru þægilegur valkostur. Andstæðan við veturnar þegar maður þarf að klæða sig í margar spjarir og hugsa um að allt passi saman, þá getur verið gott að þurfa ekki að hugsa nánar en að fara í kjólinn og skella sér í smart sumarsandala við (eða sky-high hæla til að virðast hærri). Þeir henta einstaklega vel á daginn í sólinni. Málið er að þeir séu ekki of fínir, þ.e.a.s. efnið sé casual og munstrið sé suðrænt og litirnir hressandi. Þá er ekki hægt að klikka á þessum þægilega valkosti.
Trend | Breytt 10.10.2008 kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2008 | 17:11
Skærlita töskur
Það virðist sem töskur í öllum regnboganslitum séu orðnar stórt trend, allavega í Hollywood. Margar stjörnur hafa sést með skærlitaðar töskur á handleggnum upp á síðkastið. Þar virðist gulur vera einn vinsælasti liturinn. Spurning hvort sumarið og sólin hafi þessi áhrif, en sú vinsælasta er gul taska með hringjahandfangi frá Dior. Allt frá ungstirnum á borð við Mary Kate Olsen og Rachel Bilson til stílíkona eins og Söruh Jessicu Parker hafa nælt sér í eintak. Hún er passlega stór og meðfærileg auk þess sem liturinn er frískandi. Katie Holmes hefur hins vegar fengið sér tösku í sama lit frá Louis Vuitton. Listinn endar ekki þar því Eva Longoria og Cameron Diaz sáust nýlega með gular töskur í stærri kantinum.
Gulur er þó ekki eini liturinn sem stjörnurnar skarta á handleggjum sínum því rauður, fjólublár og grænn í öllum tónum litaskalans eru einnig vinsælir. Raunveruleikastjarnan og upprenandi fatahönnuður, Lauren Conrad, skartar hér fyrir neðan skrautlegri tösku í skærrauðum lit við fallegan sumarkjól. Leikkonan Jessica Alba ber sportlega fjólubláa tösku frá Gerard Darel. Rachel Bilson á sægræna tösku frá Chloé og er sniðið öðruvísi en flott. Að lokum er það svo Kate Moss sem er með skærgræna Mulberry handtösku í klassísku sniði.
Þegar taskan er í skærum litum og sérstaklega þegar sniðið er stórt, og taskan sem sagt áberandi, er best að litum í restinni af klæðnaðinum í hófi. Svartir, gráir, hvítir henta vel og aðrir sem tóna vel við litinn á töskunni. Það er því um að gera að leyfa töskunni að njóta sín sem best. Nú er bara spurningin hver er þinn uppáhalds litur?
Aukahlutir | Breytt 10.10.2008 kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2008 | 14:53
Ally Hilfiger
Ally Hilfiger, sem heitir í raun Alexandria, er 23 ára partýstelpa sem býr í borginni sem aldrei sefur New York. Hún er einna þekktust fyrir hlutverk sitt í raunveruleikaþáttum sem sýndir voru á MTV árið 2003, og bar hann heitið Rich Girls. Ástæðan fyrir titlinum er að Ally er erfingi Hilfiger fyrirtækisins, en faðir hennar Tommy Hilfiger þekkja flestir sem hinn týpíska ameríska fatahönnuð.
Hún snéri baki við raunverukeikaþáttaímyndinni og fór í nám við leiklistarskóla í New York. Í dag hefur hún ýmis verkefni í farteskinu og hefur snúið sér að kvikmyndaframleiðslu. Hvað hönnun snertir, hefur Ally ávallt verið iðin við að hjálpa föður sínum með fyrirtækið og hannaði á tímabili línuna H by Hilfiger. Hún er listræn og málar myndir. Sögur segja að hún hugi nú að stofnun tískuverslunar í Los Angeles og bíða margir spenntir eftir hvað verður úr því.
Hún hefur vakið athygli fyrir stíl sinn undanfarið og má segja að hún hafi komið sterk á sjónarsviðið eftir fjölmiðlalægð. Eins og við má búast klæðist hún fötum eftir föður sinn, en það verður aldrei áberandi. Hún lítur ekki út eins og auglýsing fyrir merkið. Stíll hennar er unglegur en í senn klæðilegur og jarðbundinn. Bjartir litir, stuttir kjólar og nördaleg gleraugu eru einkennandi fyrir hana. Hún styrkir mikið unga hönnuði en þótt að hún hafi efni á dýrum fötum þá gerir hún þau persónuleg með fallegum aukahlutum. Í heildina litið virðist hún ekki taka föt of alvarlega og er óhrædd við að nota áberandi liti og hafa svolítið gaman af þessu.
Stíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2008 | 15:22
Ombre
Eitt af þeim trendum sem munu halda áfram frá vetri til sumars er ombre munstrið. Það var mjög áberandi á haustpöllunum síðustu en kannski ekki alveg eins fyrir sumarið. Það hefur aðeins dregið úr litagleðinni og litirnir frekar dempaðir aðeins niður í ljósa tóna. Fyrir síðasta haust voru litirnir sterkir og ólíkir litir látnir renna saman hjá merkjum eins og Prada, Louis Vuitton og Jonathan Saunders. Nú hinsvegar eru litir eins og svartur, grár, grænn og fjólublár dempaðir niður og frekar paraðir með hvítu til að létta aðeins yfir öllu.
Fyrir þá sem eru ekki vissir á hvað ombre er, þá er það litatækni þar sem tveir litir mætast og á skilunum er þeim blandað mjúklega saman. Nýjasta orðið yfir þetta er 'color bleed' sem mætti útleggja á íslensku sem litablæðing og segir það orð allt sem segja þarf. Það eru samt til fleiri orð yfir þetta eins og 'degrade' og 'dip-dye' sem fleiri þekkja kannski, en þessi litatækni byrjaði á áttunda áratuginum og var einnig vinsæl á þeim tíunda. Það hefur því fengið endurnýjun lífdaga, en á miklu, miklu smekklegri hátt í þetta sinn, eins og svo oft þegar eitthvað kemur aftur í tísku.
Ombre trend sumarsins birtist hjá hönnuðum eins og Diane von Furstenberg, Matthew Williamsson, Luella og Max Azria til að nefna nokkra.
Trend | Breytt 10.10.2008 kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2008 | 14:37
Frá vetri til sumars
Þegar ný árstíð er að koma hér á Íslandi, með tilheyrandi veðurbreytingum þá getur verið erfitt að nota það sem maður á í fataskápnum. Það fyrsta sem maður byrjar á er að hreinsa aðeins út í skápnum, sumt má kannski henda, annað fer í geymslu og að lokum eru það svo vetrarfötin sem fara aftast og sumarfötin eru dregin fremst.
Þar sem vetrinum tilheyra þung efni og dökkir litir má alveg byrja á því að pakka því niður. Það eina sem er best að halda (af efnismiklum/hlýjum flíkum) eru algjörar basic flíkur sem hægt er að nota við eitthvað efnisminna. Þá er ég að tala um klassískar flíkur eins og gallabuxur, stuttermaboli og annað sem maður notar mikið og er ekki einungis bundið við frost og kulda. Leðurstígvél og annað heftandi skótau er augljóslega ekki heldur góður kostur. Eins og veðrið er nú óútreiknanlegt á Íslandi er best að halda ýmsum yfirhöfnum, eins og stuttum jökkum og léttri kápu. Það er þó óþarfi að hafa þykkar kápur og úlpur fremst í skápnum.
Á sumrin er aðalklæðnaðurinn ökklabuxur, casual hlýra- og stuttermabolir, þægilegir sumarkjólar og flottir sumarsandalar. Flestir eiga klassísk sumarföt sem þeir geyma frá ári til árs eins og fallega sumarkjóla sem virðast ganga óháð trendum. En það er þó alltaf tilefni til að skoða hvort maður geti nú ekki bætt einhverju við. Þar sem sumarið hér er nú ekki það besta sem gerist er kannski óþarfi að byrgja sig upp af léttum og efnislitlum flíkum, en það er best að byrja að kaupa sumarfötin um leið og það er veður til, svo það sé nú hægt að nýta þau.
Þetta árið verða blómamunstur vinsæl, eins og flestir hafa nú tekið eftir. Það er aftur á móti ekki víst að það verði svo vinsælt næsta sumar, þannig að ekki eyða of miklum peningum þar. Það jafnast samt ekkert á við fallegan chiffon blómakjól. Gladiator sandalar eru einnig möst, en þeir eru ekki eins trend-háðir, þ.e.a.s. þeir hafa núna verið vinsælir nokkur sumur í röð. Best er að kaupa ekki of ýktar týpur, heldur halda sig við nokkur bönd og ólar. Þannig eru meiri líkur á að þeir gangi á næsta ári. Í raun er þó algjör óþarfi að fjárfesta í mikið af flíkum, sérstaklega ef þú átt nokkra létta sumarkjóla, buxur í ökklasídd eða sem eru á miðjum kálfum, smart sumarsandala og nóg af bolum af ýmsum gerðum til að nota lag á lag. Það sem gefur þessu öllu saman lit og líf er skart og aukahlutir. Hálsmen, sólgleraugu og stór strandtaska er allt sem þarf!
Mynd af sýningarpalli Stella McCartney; blómkjóll & sandalar Topshop.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)