Frá vetri til sumars

Þegar ný árstíð er að koma hér á Íslandi, með tilheyrandi veðurbreytingum þá getur verið erfitt að nota það sem maður á í fataskápnum. Það fyrsta sem maður byrjar á er að hreinsa aðeins út í skápnum, sumt má kannski henda, annað fer í geymslu og að lokum eru það svo vetrarfötin sem fara aftast og sumarfötin eru dregin fremst.

Þar sem vetrinum tilheyra þung efni og dökkir litir má alveg byrja á því að pakka því niður. Það eina sem er best að halda (af efnismiklum/hlýjum flíkum) eru algjörar basic flíkur sem hægt er að nota við eitthvað efnisminna. Þá er ég að tala um klassískar flíkur eins og gallabuxur, stuttermaboli og annað sem maður notar mikið og er ekki einungis bundið við frost og kulda. Leðurstígvél og annað heftandi skótau er augljóslega ekki heldur góður kostur. Eins og veðrið er nú óútreiknanlegt á Íslandi er best að halda ýmsum yfirhöfnum, eins og stuttum jökkum og léttri kápu. Það er þó óþarfi að hafa þykkar kápur og úlpur fremst í skápnum.

Á sumrin er aðalklæðnaðurinn ökklabuxur, casual hlýra- og stuttermabolir, þægilegir sumarkjólar og flottir sumarsandalar. Flestir eiga klassísk sumarföt sem þeir geyma frá ári til árs eins og fallega sumarkjóla sem virðast ganga óháð trendum. En það er þó alltaf tilefni til að skoða hvort maður geti nú ekki bætt einhverju við. Þar sem sumarið hér er nú ekki það besta sem gerist er kannski óþarfi að byrgja sig upp af léttum og efnislitlum flíkum, en það er best að byrja að kaupa sumarfötin um leið og það er veður til, svo það sé nú hægt að nýta þau.

Þetta árið verða blómamunstur vinsæl, eins og flestir hafa nú tekið eftir. Það er aftur á móti ekki víst að það verði svo vinsælt næsta sumar, þannig að ekki eyða of miklum peningum þar. Það jafnast samt ekkert á við fallegan chiffon blómakjól. Gladiator sandalar eru einnig möst, en þeir eru ekki eins trend-háðir, þ.e.a.s. þeir hafa núna verið vinsælir nokkur sumur í röð. Best er að kaupa ekki of ýktar týpur, heldur halda sig við nokkur bönd og ólar. Þannig eru meiri líkur á að þeir gangi á næsta ári. Í raun er þó algjör óþarfi að fjárfesta í mikið af flíkum, sérstaklega ef þú átt nokkra létta sumarkjóla, buxur í ökklasídd eða sem eru á miðjum kálfum, smart sumarsandala og nóg af bolum af ýmsum gerðum til að nota lag á lag. Það sem gefur þessu öllu saman lit og líf er skart og aukahlutir. Hálsmen, sólgleraugu og stór strandtaska er allt sem þarf!

sumar

Mynd af sýningarpalli Stella McCartney; blómkjóll & sandalar Topshop.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband