Færsluflokkur: Innlent

Jóla- og áramótatrend

Pallíettur og fjaðrir verða eitt það heitasta í jóla- og áramótatískunni í ár, en kögur kemur einnig sterkt inn. Margir eiga eflaust eftir að leita til innlendra hönnuða þegar jólafötin eru keypt þar sem erlendar verslanakeðjur eru farnar að hækka ansi mikið í verði. E-label er með flíkur með pallíettum og þar á meðal eru flottar pallíettuleggings. Hjá Júniform er einnig hægt að finna flotta kjóla með pallíettuefni en líka fjaðraskrauti og kögri. Fyrir þá sem ætla ekki að fjárfesta í nýjum kjól er tilvalið að klæðast svörtum kjól sem til er fyrir og nota svo fjaðrir, pallíettur og annan glamúr í aukahlutunum. Spangirnar hennar Thelmu, sem fást í Trílógíu, eru t.d. mjög sparilegt hárskraut. Á heimasíðu Topshop er að finna ýmsar litlar töskur alskreyttar pellíettum og fjöðrum - spurning hvað af því kemur fyrir jólin í búðirnar hér heima. En ef einhverjir ætla hins vegar að spreða í kjól er litaglaður pallíettukjóll frá KronKron málið í áramótapartýið. Þar er einnig að finna fallega glanskjóla í svörtu, frá Marjan Pejoski og Gaspard Yurkievich. Gott er líka að kíkja í vintage verslanir borgarinnar en þar eru margar flottar pallíettuflíkur. Ef allt bregst er sniðugt að verða sér úti um fjaðrir, pallíettur og smart efni og leifa hugmyndafluginu að reika!

fjadrir

Kate Moss elskar Balmain

Það virðist sem Kate Moss hafi tekið ástfóstri við haustlínu Balmain. Línan var rokkuð og innihélt meðal annars þröngar ökklabuxur í allskyns munstrum. Má þar nefna dalmatíu-, zebra- og slöngumunstri ásamt köflóttum. Kate Moss hefur sést í nánast öllum þessum buxum upp á síðkastið, auk þröngra leðurbuxna - einnig frá Balmain. Það sem er skemmtilegast við þetta allt saman er að Topshop hefur gert eftirlíkingar af flestum þessara buxna. Ég fór í Topshop hér heima í vikunni og sá einmitt allavega tvennar af þessum buxum. Það er því auðvelt að næla sér í svipað par, þó að munstrin séu eftirtektarverð og eflaust ekki fyrir alla.

koflottar
Balmain haust/vetur '08; Kate Moss; Zara haust/vetur '08; Topshop
.
snaka
Balmain; Kate Moss; Topshop; Topshop
.
ledur
Balmain; Kate Moss; Topshop

Tískuveldi Philip Green

philipgreenAuðjöfurinn Philip Green hefur verið mikið í fréttum bæði hér og í Bretlandi að undanförnu. Green á nú þegar stóran hluta af 'high street' keðjum á borð við Topshop, Topman, Miss Selfridge, Evans og Dorothy Perkins - undir Arcadia Group. Hann er sjöundi ríkasti maður Bretlands og er talinn ráða yfir stórum hluta fatakeðjubransans þar úti. Fjaðrafokið í kringum hann, er vegna áætlana um að tvöfalda veldi sitt, og kaupa Baug. En Baugur á nú þegar stóran hluta af fatakeðjum, þar á meðal Oasis, Warehouse, Whistles, Shoe Studio og All Saints. Áhyggjurnar liggja yfir því að hann gæti, eftir kaupin á Baugi, haft völd yfir miklum meirihluta af breskum tískuvörukeðjum.

Jane Shepherdson vann fyrir Green í mörg ár og átti stóran þátt í að koma Topshop á þann stað sem það er í dag. Árið 2007 sagði hún af sér og var ástæðan talin vera ósamkomulag milli hennar og Green. Hún starfar nú undir Baugi, sem forstjóri Whistles, og eru margir spenntir að sjá hvort hún muni fá gamla yfirmanninn aftur. Það verður allavega gaman að sjá hvernig allt fer ef Green kaupir Baug og veldið hans stækkar til muna.

Heimild


Ökklastígvél

Þetta blogg hefur verið alvarlega vanrækt uppá síðkastið og biðst ég afsökunar á því! Maður er alltof upptekinn, því miður. Ég ætla þó að reyna mitt besta að koma inn nokkrum bloggum í viku. Ég mun verða með minna af löngum færslum og reyna frekar að hafa þetta styttra og skemmtilegt. Síðan langar mig að koma með meira íslenskt, segja frá einhverju flottu í búðunum o.s.frv.

Ég hef verið að leita að flottum ökklastígvélum, í hærra laginu, s.s. ná aðeins fyrir ofan ökklann. Skóhönnuðurinn Christian Louboutin, kom með flotta rússkins ökklaskó fyrir einhverju síðan sem stjörnurnar sáust mikið í. Ég fann einmitt svipaða skó í Kaupfélaginu, skóbúð í Kringlunni og Smáralind nýlega. Verðið er nokkuð raunsætt, 6.995 kr. Skórnir eru með smá platform, og eru þeir með stabílum hæl - alls ekki of mjóum eða háum. Þeir eru úr rússkinni og eru allavega til í svörtu og að mínu mati passa þeir einstaklega vel við svartar sokkabuxur (eða blúndusokkabuxur en blúndan er mjög heit um þessar mundir).

christian-louboutin-boots

Tískubransinn á Íslandi

Maður er alltaf að heyra að íslenski tísku- og hönnunarbransinn sé að stækka og alltaf fleiri og fleiri hönnuðir að koma fram á sjónarsviðið. Ég er sammála því að bransinn er að stækka og hönnuðum að fjölga og úrvalið þar af leiðandi aldrei verið eins meira, en það er þó alltaf hægt að gera meira og gera betur.

Ef við tökum fyrst fjölmiðla. Fyrir það fyrsta er enginn almennilegur fjölmiðill sem miðast að tískubransanum - hvort sem það er alþjóðleg tíska eða innlend hönnun. Við höfum Nýtt Líf sem ég myndi frekar kalla lífstílsstímarit frekar en tískutímarit, þar sem blaðið býður uppá svo margt annað. Það var þó að skipta um stefnu og það sem ég hef séð af nýju útgáfunni er í rétta átt. Þannig við í rauninni höfum ekkert almennilegt tískutímarit sem fjallar um útlenda tískustrauma og ýmislegt innlent í senn. Við þurfum ekki annað en að líta til Norðurlandanna þar sem hið danska Costume og sænska Modette eru mjög vinsæl tískutímarit. Hingað til hafa íslenskir hönnuðir mjög mikið þurft að treysta á 'munnlega auglýsingu' eða umfjöllun í dagblöðum. Munnlega auglýsingin er svo sem skiljanleg þar sem Ísland er nú ekki stórt og oft geta þær verið árangursríkar, en væri ekki miklu betra að hafa einhvern aðgengilegan (og fagmannlegan) miðil?

Ef við tökum næst fyrir eitthvað sem tengir hvað mest tískubransann saman fyrir utan tímarit og fjölmiðla, þá eru það tískuvikur. Margir hugsa til New York, Parísar, Mílanó o.s.frv og finnast kannski Ísland ekki vænlegur kostur fyrir svo stóran atburð, en tískuvikur eru þó algengar í mörgum minni borgum. Auðvitað eru þær þá bara í samræmi við stærð borganna og landanna og því augljóst að íslensk tískuvika yrði seint einhver alþjóðleg tískuvika. Það sem er samt svo gott við tískuvikur í stað einstaka tískusýninga, er að þær þjappa iðnaðinum saman. Hönnuðir fá jafnvel umfjöllun um sig í erlendum fjölmiðlum og því er auglýsingin mikil og tækifærin fyrir nýja hönnuði frábær. Ég veit að það var starfrækt íslensk tískuvika hér á landi í einhver ár og að mínu mati var hún ekkert æðisleg, þótt nokkuð hafi verið um flotta hönnun. Ég man nú ekki af hverju hún leystist upp, en mig minnir að skipulagsleysi eða ósætti hönnuða við skipuleggjendur hafi verið málið (ef einhver man hvað kom uppá, endilega segið mér!). Núna hinsvegar er bransinn búinn að stækka svo mikið, að almennileg tískuvika væri einungis til góðs.

Íslensk hönnun hefur einungis orðið til hins betra á síðustu árum og við erum að sjá meiri gæði. Við lítum meira til útlanda fyrir innblástur og þessi þjóðlega hönnun með tilheyrandi fiskaroði, minkafeldum og því öllu, er að hverfa. Ef ég þarf hins vegar að segja eitthvað sem mér finnst að mætti fara betur, þá getur hönnunin verið svolítið einsleg stundum, þ.e.a.s hönnuðir eru kannski að gera eitthvað svipað og aðrir. Einnig finnst mér svolítið um algjörlega ómenntaða 'hönnuði' sem eru að selja flíkur og annað. Þótt það sé ekkert að því að vera ómenntaður þá verða gæðin og handbragðið því miður ekki alltaf góð. Það er akkúrat þessi einsleita hönnun sem á hér við. Annars fagna ég öllum þessum nýju og fersku hönnuðum og það er rosalega gaman að sjá til dæmis hvað nemendur Listaháskólans, núverandi eða fyrrverandi, eru að gera spennandi hluti.

Ég veit að það eru eflaust einhverjir sem lesa þennan pistil og spyrja af hverju ég sé að velta þessu fyrir mér. Er Ísland ekki bara það lítið, að það er ekki markaður fyrir tískutímarit og skipulagða tískuvirðburði? En miðað við þróunina og ef við lítum á hvað Íslendingar eru uppteknir af tísku almennt þá er það mér hugsunarefni hvort ekki væri hægt að bæta stöðuna, bæði fyrir hönnuði og annað tískufólk, en einnig fyrir þá sem vilja njóta og fylgjast með tískunni.

Endilega komið með ykkar pælingar og skoðanir hvort sem þið eruð sammála og ósammála.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband