18.4.2008 | 14:05
Emma Nygren
Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að skoða götustíl, þ.e.a.s. stíl 'venjulegs' fólks sem hefur ekki endalausa peninga milli handanna. Þegar maður er bundin við að versla mestmegnis í ódýrari verslunarkeðjum getur verið erfitt að líta ekki út eins og allir aðrir. Þá getur skemmtileg samsetning og öðruvísi sjón á hlutina breytt öllu. Fyrir utan að skoða götustílsbloggsíður eftir borgum, hef ég reglulega rekist á blogg einstaklinga sem sýna myndir af fatasamsetningu hvers dags.
Emma Nygren er tvítug og býr í Stokkhólmi. Ég varð strax hrifin af stílnum hennar og hef fylgst með blogginu í nokkurn tíma. Þótt að bloggið sé á sænsku og ég hafi verið að reyna að lesa mig í gegnum það á dönskukunnáttunni einni, er það nú einu sinni þannig að myndirnar segja allt sem segja þarf. Myndatakan sjálf er skemmtileg, uppstillingarnar flottar og myndirnar svolítið hráar. Í bakgrunni er flott íbúðin hennar sem er minimalísk með vott af skandinavískum einfaldleika, en hún hefur mikinn áhuga á allskyns hönnun og arkitektúr og kemur það fram í heimili hennar.
Stíllinn hennar er nokkuð klassískur þar sem svartur og aðrir plain litir eru í aðalhlutverki. Það er samt alltaf athygli á minnst eina flíka, hvort sem það er djarfur litur eða skemmtilegir aukahlutir á borð við klúta. Fatnaður úr verslanakeðjum eins og H&M, Topshop og Zara er blandað saman við ung og fersk sænsk merki á borð við Acne, Monki og J Lindeberg og að lokum eru svo smáatriðunum gefinn gaumur með fallegum vintage hlutum. Yfirbragðið er hrátt, unglegt og rokkaralegt með undantekningu frá blómamunstri og öðru í kvenlegri kantinum.
Skoðið bloggið EmmasCloset
Stíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2008 | 18:34
Glimmer augnförðun
Glimmer augu voru nokkuð áberandi fyrir sumarið. Ég veit að glimmer getur verið of ýkt, sérstaklega ef það er í mörgum litum eða of glitrandi. Þótt margir hönnuðir hafi sýnt mikil glimmer touch var það einungis til að búa til ákveðna stemningu og drama. Þegar maður tekur sýningarútlit og vinnur það inní hversdagsleikann þarf oft að dempa lúkkið niður. Þess vegna er nauðsynlegt að gera þessa augnmálningu nútímalega með því að halda sig við einn lit eða nota glimmer eyeliner.
Litirnir voru í nokkrum útgáfum. Til dæmis var nokkuð algengt fyrir aðeins hófsamara útlit, sem er auðveldara að herma eftir, að sýna svarta og gráa förðun með silfurglimmeri, í anda smoky augnförðunarinnar sem hefur verið vinsæl. Svo voru einnig sýndir litir allt frá bláum, fjólubláum og gulum. Charlotte Tilbury, sem farðaði á sýningu Missoni, segir að ríkulegir og sterkir litir séu flottastir og förðunin eigi að vera svolítið fersk.
Fegurð | Breytt 10.10.2008 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 17:22
Vinnufatnaður útfrá tískustraumum sumarsins
Nú þegar sumarið er að koma með nýjum straumum þá er ekki úr vegi að endurskoða fataskápinn og gera pláss fyrir ný sumarföt. Vinnufatnaður er eitthvað sem þarf einnig að skoða í þessu samhengi. Þar sem skápurinn fyllist oft af léttum sumarkjólum og pilsum á sumrin getur stundum verið snúið að finna vinnufatnað sem er léttur en einnig fagmannlegur.
Vinnustaðir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og því mismunandi hvaða fatnaður er við hæfi í hverri stöðu. Ég mun gefa ýmsar hugmyndir og reyna að sýna ólíkar samsetningar svo allir geti fengið einhvern innblástur.
Það er þrennt sem er vert að fjárfesta í fyrir sumarið af nýju trendunum sem geta vel gengið sem vinnufatnaður. Það fyrsta eru þægilega víðar buxur, helst ökklabuxur, en þær eru algjört möst. Það er smart að þær séu svolítið slouchy, þ.e.a.s. liggja ekki þröngt að líkamanum, heldur leika um hann. Þótt að sniðið eigi að vera nokkuð vítt þarf að passa að þær sitji vel á mjöðmunum. Litirnir skulu frekar vera plain heldur en hitt svartur, navy blár, grár og beige koma þar sterkir inn. Buxur af þessu tagi eru fyrst og fremst þægilegar en bera samt sem áður með sér klassískan og fágaðan stíl. Bæði er hægt að vera í fallegum gladiator söndulum eða háum hælum við þessar buxur.
Annað sem mun vera heitt í sumar eru útvíð pils. Þau verða í nokkrum síddum, en hnésíð hæfa best hér. Ekkert of stutt og alls ekki of mikla vídd og rykkingar. Við viljum forðast of mikinn volume og leitumst frekar eftir pilsum sem bera fallega vídd. Þau koma best út ef þau sitja í mittinu til að gefa sem mestan kvenleika. Ef pilsið er dökkt ættu svartar sokkabuxur að vera í lagi við, en berir leggir eru samt alltaf flottastir við þessa tegund af pilsum. Til að jafna út hlutföllin passa aðsniðnir jakkar, hugsanlega frekar stuttir, vel við. Ef pilsið er of kvenlegt getur stuttur, hrár biker leðurjakki verið smart. Það skiptir ekki öllu hvað er klæðst að ofan, ef það er haft að leiðarljósi að það sé frekar þröngt til að spila á móti víddinni. Fyrir plain útgáfu, getur gengið ágætlega að girða hvítan hlýrabol ofan í svart pils og vera svo í stuttum, svörtum jakka sem er aðeins tekin í mittið. Háir hælar eru besti kosturinn hér, þar sem það verður athygli á skóna.
Þá er komið að efri partinum og því þriðja sem er vert að eigna sér fyrir sumarmánuðina er vesti. Þá er ég ekki að meina vestin sem hafa verið vinsæl hér á landi undanfarið, heldur eru þessi aðeins efnismeiri og mætti meira líkja við ermalausa jakka. Það getur verið mjög flott að nota þunnt belti í mittið eins og margir hönnuður gerðu, en einnig er í lagi að láta það vera aflíðandi svo það sýni ekki of miklar línur. Hlýrabolir ganga vel undir, en þar sem berir handleggir gætu verið of mikið af sýnilegu skinni þá er afbragðshugmynd að klæðast fallegum stuttermabol innan undir. Þá er annað hvort hægt að setja belti í mittið, hneppa eða hafa vestið opið. Engir sérstakir litir eru betri en aðrir, frekar þarf að huga að sniðinu.
Annað sem flestir ættu að eiga í skápnum eru léttar gollur, bæði síðar og styttri, sem passa sérstaklega vel við ökklabuxurnar. Plain hlýrabolir í ýmsum pastellitum eru einnig nauðsynlegir í skápinn ásamt stuttermabolum flott er að nota hlýrabolina lag yfir lag (layered). Hvað stuttermaboli varðar finnst mér persónulega allaf v-hálsmál smekklegast, það lengir hálsinn og gefur stílhreinna yfirbragð. Þeir eru tilvaldir undir fína jakka og passa nánast við hvað sem er. Veglegir sumarsandalar eitthvað sem allir ættu að eiga. Sandalar eiga það oft til að vera lélegir og því skiptir máli að velja þá vel. Gladiator sandalar verða vinsælir í sumar og er því sniðugt að fjárfesta í einu pari.
Aukahlutir skipta miklu máli þegar hugsað er um vinnufatnað. Þar sem skærir litir og framúrstefnuleg snið eru ekki vænlegur kostur fyrir skrifstofuna, þá geta statement aukahlutir gert gæfumuninn og poppað upp á klæðnaðinn. Dæmi um flotta aukahluti sem eru smart við plain liti og klassísk snið, eru gladiator hælar eða aðrir edgy skór. Töskur í skemmtilegum áferðum og litum koma einnig stórlega til greina. Penir skartgripir eru oft betri kostur en eitthvað áberandi og það hæfir betur á vinnutíma. Hins vegar er tilvalið að hafa ávallt eins og eitt stykki cuff armband og kokkteil hring tilbúið í töskunni fyrir drykki eftir vinnu eða önnur fínni tilefni.
Annað sem skiptir einnig miklu máli eru smáatriði á flíkunum og gæði þeirra. Falleg smáatriði og vel unnin handbrögð er eitthvað sem alltaf er tekið eftir.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2008 | 01:08
Tískulíf Juliu Restoin-Roitfeld
Julia Restoin-Roitfeld, dóttir Carine Roitfeld (ritstjóra franska Vogue), deilir áhuga sínum á tísku með móður sinni en hún útskrifaðist úr hönnunarskólanum Parsons í New York árið 2006. Nú starfar hún hjá hönnunarfyrirtækinu Baron & Baron og felst starf hennar í listrænni hlið tískuauglýsinga hjá tímaritum, en hún vinnur mikið við grafíska hönnun.
Frá unga aldri hefur Julia alltaf verið uppreisnargjörn í klæðaburði. Á meðan allar litlu frönsku skólastelpurnar voru klæddar í stílhrein föt í hvítu eða svörtu mætti hún í skólann í glansbuxum. Hún er á 27. ári í dag, en þegar hún var um 10 ára fattaði hún úr hvaða tískubakgrunni hún væri í raun komin. Faðir hennar átti fatamerkið Equipment, og mamma hennar hefur starfað sem stílisti meirihluta ferils síns. Carine tók hana stundum með í myndatökur og fannst Juliu æðislegt að hitta ýmist tískufólk á svo ungum aldri. Hún áttaði sig snemma á því hvers konar hæfileika mamma hennar hafði í sambandi við stíl, en fór samt í gegnum ákveðið mótþróaskeið. Hún hataði þegar mamma hennar sagði að eitthvað væri ljótt og hún vissi að það væri satt - hún vildi samt gera hlutina á sínum eigin forsendum.
Julia finnst áhugaverð völdin sem tískuiðnaðurinn hefur. Þrátt fyrir að föt séu fyrir sumu fólki einungis leið til að hylja líkamann, þá lítur hún á þau sem einhvers konar nútímalist. Henni finnst þau samt þurfa að hafa einhvern tilgang, og viðurkennir að verslunarferðir séu ekki eitt af aðaláhugamálunum. Hún var alin upp í París en býr nú í New York en þessar tvær borgir búa yfir ólíkri menningu. Henni finnst hún geta klæðst hverju sem er í New York, fólk er ekki eins dómhart. Í París hafa konur ákveðin klassa en í New York eru föt fyrst og fremst skemmtun og fólk er almennt opið fyrir nýjum hugmyndum.
Tom Ford valdi Juliu sem andlit ilmvatns síns Black Orchid sem kom út árið 2006. Ford hefur þekkt Juliu síðan hún var lítil og honum fannst gaman að hafa séð hana þroskast í fallega konu. Henni finnst hún vera fullkomin fyrirmynd fegurðar og segist ekki hafa viljað fyrirsætu sem andlit ilmsins, heldur einhverja með áhugaverðan persónuleika. Henni sjálfri fannst mikill heiður að vera beðin um þetta verkefni og fannst það óvænt. Hún tekur það samt mjög alvarlega af því hún lítur upp til Tom Ford, og einnig af því þetta er hans fyrsti ilmur.
Stíll Juliu getur verið svolítið rokkaralegur og líkir um margt til stíl móður sinnar, þótt hennar hafi unglegra og hrárra yfirbragð. Hún nær að klæða línurnar sínar með því að undirstrika það góða. Sjálf segir hún góðan stíl nást með því að klæða sig eftir líkamsvexti og persónuleika. Uppáhaldshönnuðurinn hennar er einnig í uppáhaldi hjá móður hennar, en það er Azzedine Alaia, fyrir það hvernig hönnun hans fer kvenlegum vexti vel. Besta ráðið sem mamma hennar hefur gefið henni er að eltast ekki endalaust á eftir trendum, þau breytast of oft. Þrátt fyrir að versla í hönnunarbúðum og mæta á tískusýningar finnst henni gaman að fara í vintage verslanir, auk þess sem Carine leyfir henni að fara í skápinn sinn eitthvað sem hún verður alltaf öfunduð af.
Stíll | Breytt 10.10.2008 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2008 | 19:28
Ljósfjólublár
Dökkfjólublár litur hefur verið nokkuð vinsæll í vetur, en fyrir sumarið hafa hönnuðir lýst hann og var mikið um föla fjólubláa tóna. Efnin voru jafnan létt eins og silki og chiffon í missterkum pasteltónum. Þar sem sniðin voru nokkuð víð í flestum tilfellum, hentuðu flögrandi efnin vel og gáfu þeim þægilegra yfirbragð. Þessi litur hentar á fallegum kjólum allt frá stuttum sumarkjólum til skósíðra gyðjukjóla. Nokkuð var um rykkingar og voru þeir í stíl grísku kjólana sem verða vinsælir í sumar.
Fjólublár er fágaður litur, en dökkur getur hann verið ógnandi og of áberandi. Ljósfjólublár er aftur á móti meira rómantískur og ferskur og hentar betur á sumrin. Þótt hann sé í pasteltónum getur hann samt verið áberandi en á annan hátt, liturinn er áhugaverður án þess að vera um of. Hann getur jafnvel verið svolítið væminn, sérstaklega ef tónninn fer út í bleikann. Þá er málið að para hreinum línum í plain litum (eins og beige) við, til að fjólublái liturinn sé aðalatriðið og fái þá athygli sem hann á skilið.
Trend | Breytt 10.10.2008 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 17:19
Skór sem skúlptúr
Skóhönnun hefur orðið djarfari og djarfari með árunum. Hælar eru ekki lengur bara hælar, þeir minna nánast á skúlptúr. Mikið hefur verið pælt í formum og skapandi hugsun notuð við hönnun skótísku sumarsins. Hælarnir koma í ýmsum stærðum og gerðum. Formin voru margvísleg og voru þeir ýmist bogadregnir eða teknir í keilulagaform; hællinn færður til og notaður sem sóli (Marc Jacobs); eða myndaðir tveir hælar (Alexander McQueen). Þar sem lína Prada hafði náttúruna í hávegum, voru skórnir í stíl og mynduðu blóm. Hjá Fendi var hællinn sívalningur úr járnhringjum og Viktor & Rolf léku sér með munstur.
Það má með sanni segja að skótauið sé óvenjulegt en um leið er framtíðarbragur yfir því. Það er þróun í skóm eins og öðru, og fyrst þegar hælar komu á skó þótti það vissulega mjög framandi. Maður myndi samt halda að skór af þessu tagi myndu ekki vera mjög hentugir í hversdagsleikanum, en langt í frá hafa þeir orðið virkilega vinsælir. Þeir ótrúlegustu og óraunverulegustu á hönnuðurinn Antonio Berardi heiðurinn af. En þar vantar hreinlega hælinn á. Þeir sáust meðal annarra á fótum tískukvenna í París á tískusýningum næsta hausts. Þannig að ekkert er því nógu framúrstefnulegt þegar kemur að hönnun hæla.
Sjá meira frá skótísku sumarsins.
Skór | Breytt 10.10.2008 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 17:57
Bleikar kinnar
Förðunin fyrir sumarið verður, eins og svo oft á sumrin, létt. Þegar meiri birta og sól er úti, þá er ekki við hæfi að bera mikinn farða. Þar sem fatatískan í sumar verður rómantísk og þægileg fylgir förðunin svolítið með.
Það heitasta í kinnalitum verða bleikir tónar og sáust þeir nokkuð mikið á sýningarpöllum hönnuða allt frá hinum frumlegu Viktor & Rolf til hins klassíska Ralph Lauren. Þegar farðinn er léttur eru bleikir tónar bestir til að ýta undir ferskleika húðarinnar. Tónarnir eru allt frá pastel bleikum til bjartra. Í sumum sýningum voru framanverðar kinnarnar bleikar en hjá öðrum náði liturinn upp kinnbeinið og alveg að augnkrókum. Það er svolítið öðruvísi en flott í senn.
Stjörnurnar hafa verið að gefa tóninn fyrir sumarið á rauða dreglinum upp á síðkastið með rósóttar kinnar. Meðal þeirra eru Kate Hudson, Kate Bosworth og Kirsten Dunst.
Fegurð | Breytt 10.10.2008 kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 17:45
Hvernig er best að klæðast sumartrendunum
Ég vil benda á að allar færslurnar hér fyrir neðan eru af hinu blogginu mínu - tiska.blog.is - ég hef fært þær yfir af því, en mun einungis blogga hér í framtíðinni. Vonandi fylgjast sem flestir með og ég vil þakka fyrir öllu góðu kommentin enn og aftur :)
- - -
Oft getur verið erfitt að átta sig á hvernig sé best að klæðast hinum ýmsu tískustraumum líðandi stundar. Sérstaklega þar sem fæstir hafa líkamsvöxt á við fyrirsætur, og þær því ekki besta fyrirmyndin. Ég ætla að útskýra og koma með hugmyndir um hvernig hægt er að klæðast 8 helstu sumartrendunum (sem ég setti á bloggið fyrir svolitlu). Hvað einkennir þau, hvað ber að varast o.s.frv. Það ætti að koma sér vel núna þegar sumarvörur eru í óða önn að birtast í verslunum.
1. Rómantík
Það sem einkennir rómantíska trendið eru fjaðrir, pífur, létt efni og fölir litir. Pífur og rufflur (ruffles) verða sérstaklega vinsælar. Hvað fjaðrir varða, þá getur verið erfitt að klæðast þeim án þess að þær séu örlítið búningalegar. Það eru því frekar smáatriðin sem gilda þar og einnig aukahlutir. Fjaðraður kjóll getur þó verið flottur ef hann er látinn vera aðalatriðið og öðru í útlitinu haldið minimalísku og nútímalegu. Chiffon efni koma sterk inn og litirnir eru frekar hreinir og ljósir.
2. Blómamunstur
Þetta er trend sem hefur náð miklum vinsældum nú þegar. Það sem einkennir það eru blómamunstur af ýmsum gerðum og stærðum. Flottast er þegar munstrin eru á léttum sumarkjólum, pilsum og þunnum blússum. Rufflur henta vel hér og svolítill hippafílingur er bara af hinu góða. Gladiator sandalar henta vel við þetta munstur, þar sem þeir gefa því aðeins hrárra lúkk. Best er að leita eftir örsmáum blómum eða frekar stórum, meðalvegurinn getur haft með sér of mikinn fortíðarfíling.
3. Gegnsæ efni
Eftir harða útlit vetrartískunnar kemur meira sakleysi. Þetta trend einkennist af mismunandi lituðum efnum sem hafa það sameiginlegt að vera þunn og gegnsæ. Það er best að hugsa vel um hverju maður klæðist undir og varast skal að hafa þau þröng. Gegnsæu efnin koma best út ef þau eru frekar litlaus og því fallegra að klæðast sterkari litum undir.
4. Útvíð pils
Pilsatrendið einkennist af mikilli vídd og kvenleika. Þau geta verið í ýmsum síddum en forðast skal að þau séu síðari en hnén, sérstaklega ef víddin er mikil. Mismiklar rykkingar eru í pilsunum og best að þær séu meiri í stuttum pilsum heldur en síðum. Þau þurfa að vera há í mittið og draga það inn til að fá athyglina þangað. Hvað efri partinn varðar, þá henta aðsniðnir bolir, jakkar og blússur best ef tekið er tillit til hlutfalla. Leggirnir skulu vera helst vera berir, leggings eru allavega bannaðar.
5. Innblástur frá Afríku
Afríkutrendin einkennast af klæðnaði í safarístíl og munstrum innblásin frá ættbálkum Afríku. Safarístíllinn hefur verið vinsæll síðastliðin sumur, en nú er hann fágaðri og litirnir frekar í beige tónum heldur en mosagrænum. Ermalaus skyrtukjóll er gott dæmi um hvernig má ná þessu lúkki. Hvað munstrin varðar koma batík og ikat hvað sterkust inn.
6. Mjó belti
Beltin hafa frekar verið í breiðari kantinum undanfarið, en með sumrinu koma mjó belti. Stíllinn er frekar grófur og brúnir tónar eru vinsælir. Það þykir smart að hafa þau svolítið löng og beygja það svo inn og láta endann hanga aðeins niður eða setja hnút. Flottast er að nota þau til að draga inn mittið á víðum og síðum kjólum í fyrirferðamiklum efnum.
7. Ökklabuxur
Aðalbuxnatrend sumarsins er án efa ökklabuxur. Þær einkennast af sídd sem er rétt fyrir ofan ökklann og eru þægilega víðar. Hægt er að nota buxur í venjulegri sídd og bretta svo upp á faldinn, hönnuður sýndu það í flestum tilfellum. Fallegir sumarsandalar henta einstaklega vel við buxurnar, sem og léttir jakkar.
8. Listræn áhrif
Munstur eru stór partur af sumartískunni og mátti gæta ýmissa listræna áhrifa. Þar sem kjólar í þessum munstrum eru oftast frekar fínir er best að klæðast þeim við aðeins fínni tilefni. Hér þarf að passa upp á hlutföllin, þar sem kjóllinn er áberandi skal varast að annað taki ekki athyglina af honum, eða geri útlitið flóknara.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 17:35
Carine Roitfeld
Carine Roitfeld hefur ekki getað ýmindað sér hvers konar tískuikon hún myndi verða þegar hún hóf sinn feril. Hún byrjaði sem stílisti, bæði hjá franska Elle og sjálfstæð. Eftir að kynnast ljósmyndaranum Mario Testino árið 1986, hófu þau samstarf. Þau unnu að ýmsum auglýsingum og myndaþáttum fyrir bæði ameríska og franska Vogue. Eftir samstarfið með Testino, hóf Carine störf fyrir Tom Ford hjá Gucci og Yves Saint Laurent sem hans helsti tískuráðgjafi. Árið 2001 hafði svo Conde Nast fjölmiðlaveldið samband við hana um að ritstýra Vogue Paris. Hún gegnir þeirri stöðu enn þann dag í dag.
Það sem er áhugaverðast við hana er líflega framkoman. Hún er þessi týpíska franska kona. Hún eltist ekki við að líta óaðfinnanlega út í fegurð hárið er alltaf smá messy, augabrýrnar grófar og hún notar ekki mikið af farða. Þrátt fyrir að vera á sextugsaldri er hún ung í anda og útliti. Hún hefur líkama á við tvítuga stúlku og andlitið sýnir ekki mikil merki um öldrun.
Hún hefur verið sögð ein best klædda kona heims. Stíllinn er elegant en samt fer hún oft á jaðarinn og sýnir hugrekki. Hún spilar leikinn ekki öruggt, heldur blandar snilldarlega saman nútímatrendum við klassískan lúxusklæðnað og tekur áhættu. Hún klæðir sig ekki of unglega en heldur hlutunum samt spennandi. Hún er í tískunni en ekki fórnarlamb hennar.
Við fyrstu sýn lítur hún út fyrir að spá mikið í klæðaburðinn. En hún hugsar samt ekki mikið um hvaðan hún fær áhrifin. Hún hefur ekki áhuga á að kunna alla tískusöguna út í gegn og þekkja nöfn á hverjum einasta hönnuði eitthvað sem maður lærir í tískuskóla. Hún segist hafa þetta allt í tilfinningunni, hún veit þegar henni finnst eitthvað spennandi og áhugavert. Eitt er þó víst hún hefur eitthverja náðartískugáfu og virkilega næmt auga fyrir stíl eitthvað sem er ekki hægt að læra í skóla.
Frægðarsól Carine hefur skinið skært allt frá því hún tók við ritsjórastöðunni. Hún endurmótaði blaðið eftir sinni eigin sýn. Franska útgáfan hefur eitthvað fram yfir hinar. Hugsunin á bakvið allt saman er listræn og útkoman er svolítið edgy, hrá, ögrandi og töff. Tímaritið hefur aldrei verið eins vinsælt og akkúrat núna.
Það hvernig tískan er sett fram er hvað áhugaverðast við Vogue Paris. Hún er sett beinskeytt fram, þér er ekki kennt hvernig þú átt að klæða þig eftir líkamsvexti eða eftir einhverjum ákveðnum aldri. Það er ekki mikið gert til að láta tískuna verða aðgengilegri fyrir lesendur. Það eru ekki Hollywood stjörnur sem prýða forsíðurnar, heldur fyrirsætur. Það gengur ekki allt út á tískuna sem söluvarning, heldur sem listform.
Carine stíliserar sjálf margar tískuseríur fyrir tímaritið. Hún byrjar ekki á byrjuninni í ferlinu, hún hugsar ekki um fötin fyrst. Hún segist búa til ákveðna sögu í hvert skipti sem hún stíliserar. Hún lítur á fyrirsætuna og býr til kvikmynd í höfðinu hver er þessi stelpa og hvaða sögu býr hún yfir. Sjálf segist hún elska að blanda saman kvenlegu við karlmannlegt. Það er mjög franskt og kynþokkafullt.
Í heimi Carine eru fyrirsætur aldrei of horaðar og demantar aldrei of dýrir. Tískan er hennar heimavöllur. Hún lifir og andar í heimi þar sem flestir eru óöruggir með sjálfan sig henni líður hvergi betur. Í þessum heimi hefur hún völd, hún er fyrirmynd hún er drottning tískuheimsins.
Stíll | Breytt 10.10.2008 kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 17:32
Stórar axlir
Stórar axlir eru komnar aftur. Þá er ég ekki að meina herðapúða 80's tímabilsins. Flestir eru því sammála að þeir séu best geymdir inní skáp. En eins og flestir vita fer tískan í ákveðna hringi og nú er svo komið að áhersla á axlirnar verða áberandi í sumar. Þegar tískustraumur kemur aftur eftir margra ára 'pásu' þá er hann náttúrulega aldrei eins, og þetta trend er engin undantekning.
Stórar og miklar axlir birtast nú með ákveðnum nútímastíl og voru t.d. axlir Balenciaga í stóru blöðrusniði. Alexander McQueen hélt áherslunum á axlirnar innan ýkta marka. Nútímaáhrif þessa trends sáust best hjá Fendi, Yves Saint Laurent og Richard Nicoll - hreinar og skarpar línur axlanna og mjótt belti notað til að draga inn mittið, og þar með skapa ákveðnar andstæður. Það má segja að axlirnar séu frekar strúktúraðar, ermarnar eru stuttar og svolítill framtíðarstíll er yfir þeim.
Trend | Breytt 10.10.2008 kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)