10 Klassískar Flíkur

Klassískar flíkur sem eru áreiðanlegur er eitthvað sem allir ættu að eiga í fataskápnum. Hugsaðu þær sem beinagrindina og svo byggirðu í kringum hana. Það er ekkert gaman við klæðnað sem er það klassískur að hann verður leiðinlegur, það er að segja þegar fólk klæðist engu öðru en öruggum valkostum. Það er hinsvegar nauðsynlegt að eiga grunnhlutina til að geta klæðst með því sem er eftirtektarvert. Klassískar flíkur eru eitthvað sem standa af sér tískustrauma og árafjölda. Þær ganga frá degi til kvölds, milli árstíða og í hvaða heimshluta sem er.

Casual

1. Stuttermabolir: Persónulega finns mér V-hálsmen klassískara, en U-laga er einnig í lagi svo lengi sem það er í fallegum boga. Gott er að eiga boli í nokkrum stærðum, þ.e.a.s. bæði passlega stóra og svo aðeins víðari og einnig í nokkrum litum. Sjálf held ég mig við svartan, hvítan og gráan þar sem þeir passa við nánast allt. En svo er hægt að bæta við litum eftir árstíðum og litatrendum hverju sinni.

2. Einfaldar gollur: Prjónapeysur úr mjög fínu efni eða gollur eiga flestir í skápnum. Þær er hægt að fá í allmörgum útgáfum, allt frá stuttum og aðsniðnum til víðra sniða í svokölluðu ‘afa-sniði’. Það sem er best við gollur er hvað hægt er að nota þær við ólík tilefni. Þær virka vel við gallabuxur á casual degi, við vinnufatnað og svo sem ‘cover up’ við kjóla. Þess vegna er best að eiga nokkra liti og útgáfur. Það er algjör óþarfi að eyða miklum peningum í gollur en þar sem fjöldaframleitt fínt prjónaefni getur hnökrað, er best að borga aðeins meira fyrir allavega eina til að nota fínt.

3. Gallabuxur: Klassískt par af gallabuxum sem henta þínum vexti fullkomlega. Til að þær gangi sem lengst er dökkt óþvegið efni best. Það er ekkert endilega eitt snið betra en annað, það er svo misjafnt hvað klæðir hverjum og einum, en mjög útvíðar skálmar og níðþröngar buxur ætti að varast þegar maður leitar að klassísku pari. Ef gallabuxur eru eitt af þínum uppáhaldsflíkum og þú ert ekki nýjungagjörn í þeim efnum, er best að kaupa tvennar þegar þú finnur hið fullkomna par. Margar verslunarkeðjur framleiða hinar bestu gallabuxur, en það ætti þó alltaf að pæla í gæði efnisins.

4. Dagkjólar: Kjólar í þægilegum efnum, sem virka kannski í vinnu en ekkert fínna en það. Við erum að tala um mjúk efni og basic liti eins og svartan og gráan. Það eru ýmis snið sem geta verið klassísk, en ‘shift’ kjólarnir eru hentugastir. Þeir eru beinir í sniðinu og ná allt frá miðjum lærum til hnjáa í sídd. Þeir geta verið stutterma eða ermalausir og ættu að ganga óháð árstíð.

Fínni tilefni

5. Svartur kjóll: Orðið ‘Little Black Dress’ (LBD) kannast flestir við sem lesa erlend tískutímarit, en hann er talinn vera eitthvað sem allar konur ættu að eiga í skápnum. Svartur kjóll í klassísku sniði sem alltaf er hægt að grípa í. Hann er öruggt val og virkar vel við hin ýmsu tilefni. Það besta er að þar sem kjóllinn er ekki aðalatriðið, er hægt að leika sér meira með skó, aukahluti og skart. Það segir sig sjálft að ef kjóllinn á að vera nothæfur og flottur í fleiri ár er best að gefa sér tíma í að finna hið besta snið sem hentar sínum vexti. Svo er alltaf hægt að bæta við ódýrari í öðrum útgáfum.

6. Svartar sokkabuxur: Húðlitaðar sokkabuxur ganga nánast aldrei. Þær eru einfaldlega ekki smart. Eins og allir vita hafa leggings verið vinsælur síðustu tvö ár eða svo og búið að vera mikið trend. Það er spurning hvenær sá straumur fer að dvína og hafa þær nú þegar náð sínu hámarki. Svartar sokkabuxur, hinsvegar, eru og verða alltaf klassískar. Síðasta haust sáust sokkabuxur í allskyns útgáfum og urðu mikið trend, en svartar eru samt alltaf bestar.

7. Svartar/Gráar buxur: Ganga vel sem vinnufatnaður, en einnig í fínni tilefni og þá með kvenlegri blússu, hugsanlega í fallegum lit. Þröng snið eru ekki klassísk og heldur ekki mjög víðar. Millivegurinn er bestur þar sem sniðið er örlítið vítt en þær eru samt passlegar á mjöðmunum.

8. Blazer jakki: Klassískur blazer jakki er svartur, þótt hann komi alltaf í fleiri litum hvert ár er það svartur sem heldur sér í tímans tönn. Hann virkar við gallabuxur, við svartar buxur sem dragt, við kjóla og pils. Sem sagt við nánast allt.

9. Hvít skyrta: Mun alltaf vera klassísk. Hún skal vera svolítið innblásin af karlmannsniði, til að vera sem tímalausust, en samt halda kvenleika og þynþokka.

10. Trench kápa: Þessi tegund af kápu hefur verið dýrkuð í meira en 70 ár af bæði konum og körlum. Hún er algjörlega tímalaus og hentar nánast hvaða vexti sem er. Þótt hún sé klassísk skortir hana ekki fágun og glamúr. Hinn klassíski litur á trench kápum, beige, er að mínu mati flottastur.

Hvað aukahluti varðar, finnst mér ekki endilega einhverjir einir klassískari en aðrir. Það er náttúrulega alltaf svarta taskan sem er passlega stór til að geyma allt nauðsynlegt – og ónauðsynlegt. Flatbotna ballerínuskór og plain svartir háhæla skór eru einnig eign sem flestir ættu að eiga. Það segir sig samt sjálft hvað aukahlutatíska breytist hratt, að aukahlutir á borð við skó og töskur er það sem meirihluta stórra tískuhúsa er að fá inn helstu tekjurnar. Fólk einfaldlega kaupir sér miklu oftar nýjar töskur, skó og skart til að krydda fatnaðinn.

Athugið að þetta er einungis viðmiðun og hugmyndir. Það fer eftir atvinnu, lífstíl og stíl hvað þú álítur vera klassískar flíkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ.

Gaman að lesa skrifin þín.

Ertu til í að fjalla um skartgripi? Mér finnst síðar festar mikið í gangi núna. Hvernig festar og við hvað?

Kv.

kbh

Katrín Brynja (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband