Hárslaufur

Það er alltaf gaman að skoða hártískuna, og það er sérstaklega gaman að finna flott hártrend á sýningarpöllunum sem auðvelt er að herma eftir. Eitt af þessum trendum sumarsins eru slaufur. Þær sáust hjá nokkrum hönnuðum í hárinu, frekar ýktar og áberandi. Þær eru svipað höfuðprýði og skreyddar spangir sem hafa verið vinsælar undanfarið. Þótt slaufur minni svolítið á krúttlegar litlar stelpur með satínborða í hári voru þessar stórar og frekar ójafnar - ekki of fínar. Þær voru smá messý og komu meira að segja í öðruvísi efnum eins og PVC plastefni. Til að gera lúkkið enn harðara er flott að hafa hárið svolítið úfið.

slaufur
Fleiri hártrend sumarsins.

Hönnuðurinn Miuccia Prada

miuccia-prada3Miuccia Prada hefur að mínu mati eina áhugaverðustu ferilsögu hönnuðar. Ástæðan fyrir því, er að hún er ekki ein af þessum hönnuðum sem ‘hafa haft áhuga á hönnun síðan þeir fæddust’ og ‘byrjuðu að sauma þegar þeir voru fimm ára’ og þar fram eftir götunum. Að vissu leyti fékk hún starfið eilítið upp í hendurnar þar sem hún var arftaki krúnu Prada fyrirtækisins, en það virðist aldrei hafa verið ætlun hennar að verða heimsfrægur hönnuður.

Hún er ítölsk, fædd í sjálfri tískuborginni Mílanó árið 1949. Hún er yngsta barnabarn stofnanda Prada, Mario Prada. Hún, ásamt eiginmanni sínum Patrizio Bertelli, tók við fjölskyldufyrirtækinu árið 1978 af móður sinni. Þau hjónin hafa átt mikinn þátt í stækkun fyrirtækisins og juku úrvalið með því að koma fyrst með ready-to-wear línu og þar á eftir ódýrari línuna Miu Miu, sem hefur ekki síður átt við mikla velgengni að fagna. Fyrirtækið selur lúxusvörur um allan heim, er virði margra milljarðra og hjónin hafa þ.a.l verið á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims.

14_pradaMiuccia er hámenntuð, með doktorsgráðu í stjórnmálafræði, hefur lært látbragðsleik og er mikill listaunnandi. Hún hefur því ekki lært tískuhönnun í listaskóla, en það kemur alls ekki niður á hönnuninni. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir fallega og hreina hönnun, gæðaefni og frábær handbrögð. Hún hefur þó sagt að velgenginni eigi hún að mörgu leyti eiginmanni sínum að þakka, sem hún hitti rétt áður en hún tók við fyrirtækinu og hefur staðið á bak við hana öll þessi ár. Hann á mikinn þátt í útrás fyrirtækisins á alþjóðamarkaði og inniheldur þetta valdahús nú merki á borð við Fendi, Helmut Lang og Jil Sander.

Miuccia er trú sínum skoðunum og hugmyndum og er það eitt af því sem hefur gert hana einn leiðandi hönnuð heims. Hún eltir ekki, heldur fer sínar leiðir. Hún hélt því alltaf fram að tískuheimurinn væri heimskur og að það væri til gáfaðri og hógværari greinar, en hún hefur nú afsannað það því tíska er listform. Þótt tíska sé yfirborðskennd og tískuheimurinn geti verið grimmur, þá er hún einnig eitthvað sem er fallegt fyrir augað, eins og málverk eða skúlptúr. Eins og hún segir sjálf: "Það sem þú klæðist er hvernig þú sýnir heiminum þig, sérstaklega í nútímaheimi þar sem mannleg samskipti eru svo snögg. Tíska er tungumál augnabliksins."

miucciaprada1
 
prada-miumiu

Sex and the City: Myndin

 satcmovie3

 

 

 

 

 

satcmovie1Eins og flestir vita nú, verður Sex and the City myndin frumsýnd á morgun. Myndin er að sögn leikstjórans, Michael Patrick King, dramatísk en auðvitað fá húmorinn og skemmtilegheit sinn skerf líka. Þar sem eftirvæntingin er mikil er möguleiki að myndin lifi ekki upp að væntingum fólks, en það hefur samt mikil vinna og hugsun verið lögð í gerð myndarinnar þannig hún verður vonandi frábær skemmtun og einungis gleði að geta séð meira af lífi kvennana í New York. Það bjóst nefnilega enginn við að sjá þær aftur. Eins og margir hafa séð í fjölmiðlum hefur myndin verið í bígerð lengi, en sagan segir að Kim Cattrall hafi staðið í vegi fyrir því. Um leið og hún samþykkti var hins vegar allt sett á fullt og útkomuna fáum við að sjá á morgun.

Myndin gerist sem sagt fjórum árum eftir síðasta þáttinn. Eins í þáttunum eru það vinkonurnar fjórar, Carrie, Charlotte, Miranda og Samantha ásamt Mr.Big, Steve, Smith, Harry, Stanford og Anthony sem prýða myndina. Meðal nýrra persóna er Louise, leikin af Jennifer Hudson (Dreamgirls) og leikur hún aðstoðarkonu Carrie. Annars er ekki mikið breytt, persónurnar eru þær sömu, nema kannski aðeins þroskaðri en söguþráðurinn tekur aðeins óvænta stefnu. Brúðkaup Carrie og Mr.Big er eitt af því sem við sjáum í trailernum, einnig virðast vera vandamál í hjónabandi Miröndu og Steve’s. Charlotte verður loksins að ósk sinni og verður ófrísk, en hún hafði ættleitt kínverska stúlku og þetta því annað barn hennar og Harry. Að lokum er það svo Samantha sem býr nú í órafjarlægð frá hinum vinkonunum, eða í Los Angeles með Smith. Það verður spennandi að sjá myndina sem allir eru að bíða eftir og segi ég bara góða skemmtun!

Trailer

 satcmovie2

Heiðurinn á tískunni í myndinni á Patricia Field.

carriebradshaw


Tískan í Sex and the City

satctiska2Sex and the City þættirnir hafa óneitanlega haft mikil áhrif á líf kvenna um allan heim og þeirra sjálfsmynd, en tískuáhrifin hafa samt ekki vakið minni athygli. Nú þegar myndin kemur út er náttúrulega enn meira gert úr tískuhliðinni og þar aftur fengin tískudrottning þáttanna, stílistinn Patricia Field, til að klæða vinkonurnar. Sarah Jessica, sem leikur Carrie aðalpersónuna, segir að tískan sé öðruvísi og er það skiljanlegt þar sem persónurnar hafa þroskast og stíllinn breytist með tímanum.

Snilld Patriciu liggur í skilning hennar á persónunum. Það er erfitt starf að skilja karakter hverrar persónu fyrir sig og túlka persónuleika þeirra með fötum. En hún nær því einhvern veginn svo frábærlega að það er erfitt að hugsa hvernig hlutirnir væru ef annar stílisti ætti í hlut. Hún sýnir að persónuleiki er það mikilvægasta þegar föt og tíska eru annars vegar. Hún túlkar hverja persónu á sinn hátt og nær að skila ákveðnum draumaheimi til áhorfenda.

Aðferðir Patriciu er ekki að klæða þær í hönnunarföt beint af sýningarpöllunum. Það væri of einfalt. Hún reynir að opna hugmyndir fyrir öðru eins og vintage fatnaði og antík aukahlutum, og blanda með því dýra og flotta. Þannig nær hún að skapa skemmtilegri klæðnað. Auk þess hefur hún einstaka sýn á föt og er snillingur í að koma með eitthvað óvenjulegt og óvænt – eitthvað sem maður hefði ekki getað hugsað sér.

Í þáttunum, þurftu konurnar aldrei afsökun fyrir því að dressa sig upp. Þær gerðu það einfaldlega af því þeim langaði til þess. Þær voru ekki að reyna að þóknast gildum annarra. Aðalpersónan Carrie Bradshaw, hefur algjörlega sinn eigin stíl og er ekki klædd í tískustrauma. Það er eitthvað dreymandi við fatnað hennar – fjaðrir, pífur, loðfeldir. Hún klæðir sig í það sem hún vill, þegar hún vill. Skóárátta hennar er einnig áberandi út þættina og var merkilegt að sjá tilfinninganæmi hennar þegar skór áttu í hlut – grátur, hlátur og hvaðeina. En ætli tískan sé ekki bara valdamikil og nauðsynleg, eins og sagt er; "A girl needs her shoes".

satctiska3

Carrie: Er óhrædd við tískuna. Ekki hægt að lýsa stílnum með einu orði. Er mikið fyrir hönnuði en blandar fötum oft óvenjulega saman. Skór spila stóra rullu sem og aukahlutir.
Samantha: Fatnaður hennar er kynþokkafullur og skín af sjálfsöryggi. Hún sýnir kvenlegar línur í aðþröngum og áberandi fatnaði. Litir, munstur og glys eru hennar einkennismerki.
Charlotte: Hefur sætan, dömulegan stíl sem ber með sér svolítinn snobbfíling. Hún er alltaf vel til höfð með tilheyrandi útvíðum kjólum og fínum sniðum.
Miranda: Vinnufatnaður hennar samanstendur af drögtum, skyrtum og pencil pilsum. Hreinir litir og beinar, skarpar línur. Klæðnaður hennar í frítíma er þó kvenlegri og meira um liti og þægilegri snið.

satctiska1

 Myndband sem sýnir tískuna í myndinni. Viðtal við Pat Field:

Tískumóment í gegnum tíðina í þáttunum


Áhrif Sex and the City

sexandthecity6Það verður Sex and the City þema á blogginu þessa vikuna, í tilefni af frumsýningu myndarinnar á föstudaginn. Þetta verður svipað og í þarsíðustu viku þar sem það var persónulegs stíls þema og mun ég gera þetta öðruhverju, tileinka einhverju ákveðnu efni eina og eina viku. En þeir sem eru ekki aðdáendur Sex and the City (vonandi enginn) verða því að afsaka það að næstu greinar verða tengdar þáttunum.

Það er ekki hægt að neita áhrifum Sex and the City þáttanna. Áhrifin birtust í hinu ýmsu myndum en fyrst og fremst fjölluðu þættirnir um sjálfstæðar og opnar konur sem voru ekki hræddar við að vera þær sjálfar og segja það sem þær hugsuðu. Það sem hefur kannski orðið hvað vinsælast við þættina er hvað konur geta tengst mikið persónunum og þeirra vandamálum. Umfjöllunarefnin eru ást með tilheyrandi samböndum, vinskap, skemmtanalífi og fjölskyldu.

Það er alveg ljóst að það er ekki hægt að bera neinn þátt saman við Sex and the City. Þættirnir voru einsdæmi á sínu sviði og það mun örugglega ekki koma neitt svipað sem nær jafnmiklum vinsældum á næstu árum. Þátturinn gaf konum einhverja von og aðra sýn á lífið; það er í lagi að vera einhleyp; það er í lagi að kaupa dýra skó; það er í lagi að vera með manni sem er fátækari en þú; það er í lagi að langa ekki að eignast börn; og það er mannlegt að gera mistök.

Vinsældirnar aukast dag frá degi og gera það enn í dag þótt ganga þáttanna hafi hætt. En þeir byrjuðu árið 1998 og fylgdu vinkonunum Carrie (sem segir sögu vinkvennana), Charlotte, Miröndu og Samönthu, með fallegum mönnum inná milli. Þessar konur buðu áhorfendum inní veröld New York borgar og sýndu hvernig líf nútímakonunnar er. Beinskeyttur húmor og völd kvennanna spila þar stóran sess. Það er ekki verið að fegra neitt heldur eru hlutirnir látnir vera raunverulegir og eins og þeir eru.

Nú þegar myndin kemur út, fjórum árum eftir þættina, er augljóst að þættirnir sitja enn í fólki og það hefur ekki gleymt vinkonunum fjórum. Margir eru orðnir virkilega spenntir að sjá myndina sem verður frumsýnd á föstudaginn hér á landi. Ég hef nú þegar nælt mér í miða og hvet ég alla harða aðdáendur til að fara inná midi.is og tryggja sér miða á frumsýninguna.

sexandthecity1

sexandthecity5

sexandthecity4
sexandthecity2
sexandthecity3

Ungir, danskir hönnuðir

Þótt reyndir hönnuðir í Danmörku njóti mikilla vinsælda, er það ný kynslóð af hönnuðum sem eru hvað áhugaverðastir um þessar mundir. Ég ætla að fjalla um nokkra ferska og upprennandi hönnuði af mörgum og sýna hversu framarlega Danir eru að verða á þessu sviði.

Camilla Skovgaard

Camilla Skovgaard er ferskur skóhönnuður og hefur meira að segja hlotist sá heiður að vera kölluð eftirfari Manolo Blahnik. Eftir útskrift árið 2006 tók ítalskt hátísku skófyrirtæki að framleiða hönnun hennar og var stórverslunin Saks í New York fyrstu kaupendurnir á línunni. Hún hefur unnið mörg verðlaun á sínu sviði og kemur það ekki á óvart, enda miklir hæfileikar þar á ferð. Hún notar mikið ýmsar áferðir á leðri og spilar með sterka og fallega liti á móti svörtum. Skórnir eru fágaðir en að sama skapi edgy. Snið skapa stóran sess í línunni og bera margir skórnir framúrstefnuleg og öðruvísi snið. The Times hafa jafnvel komist svo að orði að skórnir séu hátískuútgáfa af hönnun Arne Jacobsen.

Hubert

Hubert er nýlegt merki, hannað af Rikke Hubert. Merkið er ekki skapað af metnaðinum að ná heimsvinsældum heldur af ástríðu hönnuðarins af hönnun. "Ég hanna því ég fæ hugmyndir sem þurfa að komast út – úr höfðinu og höndunum." segir Rikke. Merkið hefur nú vaxið fram úr öllum vonum og hefur hún lokað lítilli verslun sinni til að einbeita sér alfarið að útbreiðslu merkisins. "Ég hef alltaf látið hugmyndir augnabliksins verða að veruleika og gert hluti án mikillar íhugunar." segir hún um opnun verslunarinnar strax eftir hönnunarskóla. "Ég sá skilti ‘til leigu’ og hugsaði með mér að með þessu móti myndi fólk sjá hönnunina mína," en hún vill frekar að fólk uppgötvi merkið af sjálfsdáðum. Stíll Hubert er kvenlegur, einfaldur og listrænn, og er Rikke ekki hrædd við að fara ótroðnar slóðir. "Hvert stykki þarf að geta staðið eitt og sér." segir hönnuðurinn sem vinnur mikið með svartan og lítið með liti. Að hennar sögn stendur svartur fyrir ró og einfaldleika. Rikke stendur ein að fyrirtækinu sínu, "Ég hef mikið á minni könnu og það getur verið erfitt en það er einnig þægilegt að vera með umsjón yfir öllu og gera allt sjálf."

Louise Amstrup

Louise Amstrup er upprennandi danskur hönnuður sem hannar fatnað í dönskum stíl en í alþjóðlegum klassa. Hún er nú þegar orðin stórt nafn, bæði í heimalandinu og erlendis. Áður en hún hóf sitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur árum, starfaði Louise m.a. fyrir hönnuðina Alexander McQueen, Sophia Kokosalaki og Jonathan Saunders. Hún hefur notið mikillar velgengni og meðal annars hefur verið fjallað um hönnun hennar í Vogue. Sjálf segir hún fatnaðinn vera listrænan með samansafn af fleiri stílum. "Ég ólst upp í Þýskalandi, Danmörku og Englandi. Öll þrjú löndin hafa haft áhrif á minn stíl og tilganginn í hönnuninni. Línurnar mínar eru stílhreinar og byggðar á miklum gæðum, sem skandinavísk hönnun er allajafna, en þær hafa samt hráan fíling sem ég hef fengið frá veru minni í London. Að sama skapi hef ég lagt mikla áherslu á tæknilegan bakgrunn, sem ég hef frá hönnunarskólanum í Düsseldorf." Útkoman er lína full af hreinum, einföldum og kvenlegum sniðum með mikið af hráum undirtónum.

Ole Yde

Hinn 29 ára gamli Ole Yde vann hönnunarverðlaun Illum árið 2005. Stuttu eftir það byrjaði hann að hanna kjóla fyrir einstaka kúnna. Síðasta haust sýndi hann í fyrsta sinn línu undir nafninu Yde. Einkennismerki hönnun hans eru vafalaust kjólar. "Mér líkar vel við kvöldfatnað, því ég elska fínar konur. Ég vil undirstrika kvenleika, af því hann getur fært konunni mikinn styrk. Einnig líkar mér hvað kjóll getur verið áhrifamikill, hann er meira um fagurfræði en praktík." segir Ole Yde. Lína síðasta veturs samanstóð af 25 kjólum, sem flestir voru stuttir kokkteilkjólar. "Það á að hafa gaman og drekka kampavín í kjólunum mínum." Hann notaði mikið efni eins og silkichiffon, "silki er mitt uppáhalds efni, af því það sýnir lúxus og það er falleg hreyfing í því." Línan var öll svört og hvít, "svartur hefur mikla möguleika og svartur kjóll getur t.d. borið fleiri pífur en rauður kjóll án þess að það verði of villt." Í sumarlínunni voru einnig pils og blússur þótt kjólarnir hafi verið áberandi. Aðspurður um innblástur segir hann gamlar kvikmyndastjörnur á borð við Audrey Hepburn, hönnun Georg Jensen og allt við Marie Antoinette hafa áhrif á sig.

Stine Goya

Stine Goya byrjaði ferilinn sem fyrirsæta og stílisti en útskrifaðist úr Central St. Martins í London árið 2005. Sem hluti af náminu vann hún hjá hönnuðunum Jonathan Saunders, Eley Kishimoto og Hussein Chalayan. Hönnun hennar hefur nú vakið umtal innanlands sem erlendis og birst í tímaritum á borð við Nylon, Glamour og Elle. Stíll hönnunarinnar er litríkur þar sem áhugaverð blanda af litum og munstrum spila stóran sess ásamt sniðum sem kalla fram óvenjuleg hlutföll. Vetrarlínan síðasta var mikið innblásin af jazzáhrifum þriðja áratugarins og 70’s grafískum munstrum. Sumarlínan bar þó með sér léttari keim og aðeins nútímalegri hönnun, þótt litir og munstur hafi áfram verið aðalmálið.

danskirhonnudir

Fyrir meiri danska hönnun, kíkið á dönsku tískuvikuna fyrir haust/vetur 08.


Gull

Þar sem hinn sannkallaða glyskeppni, Eurovision, er í fullum gangi um þessar mundir fannst mér við hæfi að fjalla um gulltrend sumarsins. Gull var ekkert ofuráberandi, en birtist á pöllum hjá lúxus tískuhúsum eins og Burberry Prorsum og Prada. Það er líka svolítill lúxusbragur yfir þessu glansefni, enda hefur gull í gegnum tíðina verið tengt við ríkidæmi. Ólíkt pallíettu og glyssteinaáhrifum síðasta árs er gullið nú frekar í efninu sjálfu. En það er um að gera að klæðast gulli á flottum partýkjólum fyrir hið ultimate glamúr lúkk.

gull

Flottar festar

Mig langaði aðeins að halda áfram með festarnar. En ég hef verið að skoða aðeins á netinu áhugaverðar síður og hef fundið nokkrar flottar hálsfestar sem eru í stíl pistilsins fyrir neðan.

halsfestar2
 

1. Látlaust með smá skrauti. Filigree Bird Layering Necklace $18 frá UrbanOutfitters. 76 cm

2. Tvöfalt með skrauti. Jewel Box Necklace $18 frá UrbanOutfitters. 86 cm

3. Svipað og Katie Holmes bar. Gara Danielle Chain Necklace $103.5 frá ShopBop. 76 cm

4. Í stíl Söruh Jessicu. Tiered Snake Chain Necklace $24 frá UrbanOutfitters. 96 cm

5. Misþykkar keðjur gefa flott touch. Dirty Librarian Chains Renewal Necklace $189 frá RevolveClothing.

6. Hófstillt útgáfa af missíðum hálsfestum. Bing Bang Long Chain Tag Necklace $254 frá ShopBop. 106 cm


Fyrirspurn: Síðar hálsfestar

Ég fékk fyrirspurn um skart fyrir helgi og mun ég með glöðu geði svara henni af minni bestu getu. Hún hljómaði svona:

Ertu til í að fjalla um skartgripi? Mér finnst síðar festar mikið í gangi núna. Hvernig festar og við hvað?

Síðar festar geta verið margskonar, allt frá því að vera þykkar og chunky, þunnar og penlegar og svo geta þær einnig verið með ýmsu hangandi skrauti. En pendant festar (með hangandi skrauti) hafa verið svolítið vinsælar en eru frekar á undanhaldi heldur en hitt.

Þær sem ég hef verið að sjá undanfarið og finnst persónulega fallegastar, eru þunnar og mjög síðar hálsfestar, og til að gera þær spennandi er hægt að klæðast nokkrum misstórum í einu. Til að fá enn meiri fjölbreytni getur verið flott að þær séu ekki allar eins, og fá svolítinn mismatch fíling. En haustlína Givenchy innihélt einmitt flotta útgáfu af því útliti, kannski aðeins of ýkt fyrir raunveruleikann, en samt góð fyrirmynd fyrir lúkkið. Þannig er hægt að blanda gulli með silfri og þunnum festum með enn þynnri o.s.frv.

Festarnar geta alveg verið með skrauti, en aðalmálið er samt að þær séu svolítið látlausar. Þannig að smátt skraut sem er á víð og dreif um festina væri ákjósanlegast. Síðastliðin vetur hafa nokkrar stjörnur borið fallegar síðar festar með penu skrauti, en ég tel samt að fyrir næsta haust verði þær enn síðari og meiri ýkt í þeim með því að blanda saman síddum. Katie Holmes bar fallega festi í Costume Institute Gala sem var nýlega og voru það nokkrar festar í svipaðri sídd, en Sarah Jessica Parker fær þó mín stig fyrir sína útgáfu.

Uppfærsla: Ég hef verið að drífa mig í gær en ég gleymdi að svara við hvað hálsfestar af þessu tagi passa. Að mínu mati eru lúxusefni eins og silki og satín það besta. Þau einhvern veginn complimenta gullinu og silfrinu vel, sérstaklega þegar festarnar eru síðar og þunnar. Hvað liti varðar finnast mér ríkir tónar og sterkir litir henta best eða einfaldlega svartur. Allavega ekki of fölur, þar sem maður vill draga athyglina að festunum og þá skiptir 'bakgrunnurinn' máli. Aðalmálið er að hugsa um það sem fer undir festina, þ.e.a.s. efri partinn, frekar en að draga mikla athygli að neðan. Kjólar og fallegar blússur henta því vel.

halsfestar


Fín Tilefni

Eitt það erfiðasta við fínni tilefni er að finna út hvað á klæðast hvenær og við hvað. Það ættu ekki að vera ákveðnar reglur, þar sem maður á fyrst og fremst að klæðast því sem maður er ánægður í, en það er samt alltaf gott að huga svolítið að tilefninu. Það er óþægilegt að mæta bæði of fínn og ófínn. Þess vegna er gott að skoða boðskortið (ef það er) og leita eftir upplýsingum um klæðnað. Oftast er hægt að geta sér um stig klæðnaðsins útfrá því sem er að gerast, en ef maður er ekki viss er alltaf best að hringja í gestgjafann eða skipuleggjanda og spyrjast fyrir. Bara til að hafa allt á hreinu.

Galaboð (Black Tie)

Síðkjóll er algengastur við þessi tilefni, þótt það sé ekkert möst. Hvort sem þetta er árshátíð eða fínt stórafmæli er þetta tilefni til að hafa fyrir útlitinu og kjóllinn ætti að vera mjög fínn. Boð af þessu tagi býður upp á tilefni til að láta dekra aðeins við sig og fara í greiðslu og förðun, eyða pening í fallegan kjól – eða klæðast plain svörtum kjól og láta athyglina vera á fallegt skart og skó.

Kokkteilboð

Þessi eru ekki eins fín og galaboð en krefjast samt að þú klæðist annaðhvort kjól eða einhverju öðru fínu eins og pilsi. Hér má aðeins leika sér með liti og munstur. Þar sem kjóllinn er frekar stuttur, allt frá rétt fyrir neðan hné og rétt fyrir ofan hné, er best að skórnir séu háir og svolítið flottari en plain svartir. Skartgripir mega vera áberandi á borð við kokkteilhringi og fína eyrnalokka. Taskan ætti alls ekki að vera stór, og þar sem oftast hentar ekki að vera með tösku á öxlunum í svona boðum, er clutch taska passleg.

Brúðkaup

Fyrst af öllu skaltu forðast að klæðast hvítu. Ég er í raun ekki sammála þessu, en fólk verður stundum mjög tilfinningasamt með það. Það er því best að halda sig frá hvítu til að draga sem minnsta athygli frá brúðinni. Einnig er allt sem er of háð tísku og trendum frekar óviðeigandi, best að sleppa himinháum skóm og of mikið af skarti. Hér þarf að skoða boðskortið vel. Er þetta fín kvöldveisla (sem myndi þýða klæðnað á borð við kokkteilboð eða jafnvel galaboð), er þetta sólrík sumarveisla (fallegur, léttur sumarkjóll), eða sveitabrúðkaup undir berum himni (hér myndi millifínn klæðnaður hæfa).

Millifín tilefni

Sum tilefni kalla á klæðnað sem má hvorki vera of fínn en heldur ekki of casual. Mataboð, lítil afmælisveisla eða annað tilefni sem kallar á eitthvað milli gallabuxna og kjóls. Þá þarf að fara milliveginn og það er ýmislegt í boði þar. Pils virka vel, ef það er vídd í því er aðsniðin toppur betri en ef það er í þrengra laginu hentar frjálsegt efni betur að ofan. Svartar jakkafatabuxur við smart blússu er einnig flott, jakkinn er í raun óþarfur. Gallabuxur geta alveg gengið, en þá er líka best að þær séu frekar klassískar og í dökkum lit. Eins og flestir vita hentar nánast hvað sem er við gallabuxur þannig að það er ekkert endilega eitthvað eitt betra en annað þar. Kjóll er alveg inní myndinni, en vertu viss um að tóna hann niður og passa að sniðið sé frekar örlítið vítt heldur en hitt. Hrár leðurjakki virkar vel við ef kjóllinn er aðeins of fínn, eða casual golla.
Í raun er best að hugsa þetta þannig að þú villt vera fínni en þú ert vanalega og eyða smá tíma í undirbúning en ekki uppstríluð í förðun og hári með glitrandi skart og allann pakkann.

Þemapartý

Það eru til nokkrar útgáfur af þemapartýum. Það er til hið klassíska grímuball þar sem gestir mega líklegast velja búning að eigin vali og ef til vill er það örlítið í frjálslegri kantinum; svo eru það þemapartý með ýmsum þemum og þau geta verið misfín. Fyrir fínni boð ættirðu að halda þig við kvenlegri hlutverk. Það þarf að gefa góða hugsun í þemað og reyna að gera sitt besta í að túlka það. Annað er einungis móðgun fyrir gestgjafa sem er af öllum líkindum búin að hafa fyrir öllu saman. Þegar vikið er að frjálslegri boðum má alveg fara aðeins út fyrir rammann, en best er þó að huga að því að þema eru oft túlkuð best með aukahlutum, förðun og öðrum smáatriðum. Fyrirferðamiklir búningar minna aðeins á öskudaginn.

kjolar
Allt kjólar frá ShopBop

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband