Fín Tilefni

Eitt það erfiðasta við fínni tilefni er að finna út hvað á klæðast hvenær og við hvað. Það ættu ekki að vera ákveðnar reglur, þar sem maður á fyrst og fremst að klæðast því sem maður er ánægður í, en það er samt alltaf gott að huga svolítið að tilefninu. Það er óþægilegt að mæta bæði of fínn og ófínn. Þess vegna er gott að skoða boðskortið (ef það er) og leita eftir upplýsingum um klæðnað. Oftast er hægt að geta sér um stig klæðnaðsins útfrá því sem er að gerast, en ef maður er ekki viss er alltaf best að hringja í gestgjafann eða skipuleggjanda og spyrjast fyrir. Bara til að hafa allt á hreinu.

Galaboð (Black Tie)

Síðkjóll er algengastur við þessi tilefni, þótt það sé ekkert möst. Hvort sem þetta er árshátíð eða fínt stórafmæli er þetta tilefni til að hafa fyrir útlitinu og kjóllinn ætti að vera mjög fínn. Boð af þessu tagi býður upp á tilefni til að láta dekra aðeins við sig og fara í greiðslu og förðun, eyða pening í fallegan kjól – eða klæðast plain svörtum kjól og láta athyglina vera á fallegt skart og skó.

Kokkteilboð

Þessi eru ekki eins fín og galaboð en krefjast samt að þú klæðist annaðhvort kjól eða einhverju öðru fínu eins og pilsi. Hér má aðeins leika sér með liti og munstur. Þar sem kjóllinn er frekar stuttur, allt frá rétt fyrir neðan hné og rétt fyrir ofan hné, er best að skórnir séu háir og svolítið flottari en plain svartir. Skartgripir mega vera áberandi á borð við kokkteilhringi og fína eyrnalokka. Taskan ætti alls ekki að vera stór, og þar sem oftast hentar ekki að vera með tösku á öxlunum í svona boðum, er clutch taska passleg.

Brúðkaup

Fyrst af öllu skaltu forðast að klæðast hvítu. Ég er í raun ekki sammála þessu, en fólk verður stundum mjög tilfinningasamt með það. Það er því best að halda sig frá hvítu til að draga sem minnsta athygli frá brúðinni. Einnig er allt sem er of háð tísku og trendum frekar óviðeigandi, best að sleppa himinháum skóm og of mikið af skarti. Hér þarf að skoða boðskortið vel. Er þetta fín kvöldveisla (sem myndi þýða klæðnað á borð við kokkteilboð eða jafnvel galaboð), er þetta sólrík sumarveisla (fallegur, léttur sumarkjóll), eða sveitabrúðkaup undir berum himni (hér myndi millifínn klæðnaður hæfa).

Millifín tilefni

Sum tilefni kalla á klæðnað sem má hvorki vera of fínn en heldur ekki of casual. Mataboð, lítil afmælisveisla eða annað tilefni sem kallar á eitthvað milli gallabuxna og kjóls. Þá þarf að fara milliveginn og það er ýmislegt í boði þar. Pils virka vel, ef það er vídd í því er aðsniðin toppur betri en ef það er í þrengra laginu hentar frjálsegt efni betur að ofan. Svartar jakkafatabuxur við smart blússu er einnig flott, jakkinn er í raun óþarfur. Gallabuxur geta alveg gengið, en þá er líka best að þær séu frekar klassískar og í dökkum lit. Eins og flestir vita hentar nánast hvað sem er við gallabuxur þannig að það er ekkert endilega eitthvað eitt betra en annað þar. Kjóll er alveg inní myndinni, en vertu viss um að tóna hann niður og passa að sniðið sé frekar örlítið vítt heldur en hitt. Hrár leðurjakki virkar vel við ef kjóllinn er aðeins of fínn, eða casual golla.
Í raun er best að hugsa þetta þannig að þú villt vera fínni en þú ert vanalega og eyða smá tíma í undirbúning en ekki uppstríluð í förðun og hári með glitrandi skart og allann pakkann.

Þemapartý

Það eru til nokkrar útgáfur af þemapartýum. Það er til hið klassíska grímuball þar sem gestir mega líklegast velja búning að eigin vali og ef til vill er það örlítið í frjálslegri kantinum; svo eru það þemapartý með ýmsum þemum og þau geta verið misfín. Fyrir fínni boð ættirðu að halda þig við kvenlegri hlutverk. Það þarf að gefa góða hugsun í þemað og reyna að gera sitt besta í að túlka það. Annað er einungis móðgun fyrir gestgjafa sem er af öllum líkindum búin að hafa fyrir öllu saman. Þegar vikið er að frjálslegri boðum má alveg fara aðeins út fyrir rammann, en best er þó að huga að því að þema eru oft túlkuð best með aukahlutum, förðun og öðrum smáatriðum. Fyrirferðamiklir búningar minna aðeins á öskudaginn.

kjolar
Allt kjólar frá ShopBop

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband