25.11.2008 | 16:40
Matthew Williamson næstur fyrir H&M
Matthew Williamson er næsti hönnuður til að vinna með verslanakeðjunni H&M. Eins og ætti að vera flestum ljóst leita H&M árlega til samstarfs við fræga hönnuði, og fyrir líðandi vetur var það Rei Kawakubo hönnuður Comme des Garcons sem gerði línu fyrir keðjuna. Matthew mun hins vegar hanna línu fyrir næsta vor/sumar og mun hún koma í verslanir 23.apríl á næsta ári.
Matthew segir þetta spennandi tækifæri fyrir sig, og segir hann H&M hafa skapað hálfgert brjálæði í tískuheiminum með því að láta virta hönnuði hanna ódýran fatnað. "Ég er spenntur yfir því að verk mín fyrir H&M verði aðgengileg svo mörgu fólki um allan heim." Hann mun einnig hanna karlmannslínu en hönnunarlínur H&M hafa ekki verið gerðar fyrir menn hingað til.
Ef marka má viðbrögð viðskiptavina H&M við hönnunarlínunum mun þessi valda mikilli eftirspurn, enda Matthew Williamson þekktur fyrir fallega hönnun og hentar hún einkar vel fyrir sumartímann. Hann notar óspart liti og munstur, en auk þess að hanna undir eigin nafni er hann aðalhönnuður ítalska tískuhússins Emilio Pucci. Það er ljóst að hann á marga aðdáendur sem bíða nú spenntir eftir því að komast yfir fatnað hans fyrir H&M.
Meginflokkur: Verslanir | Aukaflokkar: Hönnuðir, Tískufréttir | Breytt 10.12.2008 kl. 18:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.