Færsluflokkur: Greinar
12.5.2008 | 22:19
Persónulegur Stíll
Það er nú einu sinni þannig að allt fólk klæðist. Frumtilgangur fatnaðar er fyrst og fremst að hylja líkamann - föt eru samt svo miklu meira en það. Við notum fatnað til að tjá persónuleika okkar utan frá. Það er það fyrsta sem annað fólk sér. Útlitið skiptir svo miklu máli á það hvernig aðrir sjá okkur. Af hverju ekki að sýna hver maður er með fötum og aukahlutum?
Persónulegur stíll er það að maður skapar sinn eigin stíl útfrá sínum persónuleika og lífstíl. Það að gefa hugsun í hverju maður klæðist og hvað klæðir sinn líkama. Allir hafa sinn smekk á því hvað þeim finnst flott og hvað ekki. Það er þó mikilvægt að sækja innblástur fyrir fatnaði frá öðru fólki, hönnuðum, umhverfinu og tískustraumum líðandi stundar.
Það eru nokkur atriði sem maður þarf að hafa í huga þegar maður hugsar um sinn persónulega stíl. Gott er að reyna að finna út hvað maður vill segja með fatnaðinum og hvað einkennir persónaleikann. Hvernig er hægt að sýna persónuleikann í gegnum sinn stíl. Einnig spila inní þættir eins og lífsstíll, misjöfn tilefni og veður. Það sem ber að varast er að reyna að þóknast öðrum í klæðaburði það sem við höldum að sé réttast fyrir eitthað ákveðið tilefni. Útkoman er að stíllinn er ekki lengur svo persónulegur.
Fólkið sem er með hvað flottasta persónulega stílinn er það sem fylgist með því sem er að gerast, tekur frá tískunni og fólkinu í kringum sig og nýtir sér það til að skapa sinn stíl. Það blandar saman dýrum og ódýrum hlutum og gefur hugsun í útlitið án þess þó að ofhugsa hlutina. Þegar öllu er á botninn hvolft, veit það hvað það vill það er eitt það mikilvægasta þegar hugsað er um stíl.
Það sem vert er að muna er að allir hafa sinn smekk og sínar skoðanir. Hvort sem öðru fólki finnist smekkur annarra ljótur eða flottur, þá er persónuleg vellíðan mikilvægust að vera ánægður með fötin og sjálfan sig.
Klikkið á myndina einu sinni og svo aftur í næsta glugga til að sjá hana í sinni stærstu mynd og til að lesa textann
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 14:37
Frá vetri til sumars
Þegar ný árstíð er að koma hér á Íslandi, með tilheyrandi veðurbreytingum þá getur verið erfitt að nota það sem maður á í fataskápnum. Það fyrsta sem maður byrjar á er að hreinsa aðeins út í skápnum, sumt má kannski henda, annað fer í geymslu og að lokum eru það svo vetrarfötin sem fara aftast og sumarfötin eru dregin fremst.
Þar sem vetrinum tilheyra þung efni og dökkir litir má alveg byrja á því að pakka því niður. Það eina sem er best að halda (af efnismiklum/hlýjum flíkum) eru algjörar basic flíkur sem hægt er að nota við eitthvað efnisminna. Þá er ég að tala um klassískar flíkur eins og gallabuxur, stuttermaboli og annað sem maður notar mikið og er ekki einungis bundið við frost og kulda. Leðurstígvél og annað heftandi skótau er augljóslega ekki heldur góður kostur. Eins og veðrið er nú óútreiknanlegt á Íslandi er best að halda ýmsum yfirhöfnum, eins og stuttum jökkum og léttri kápu. Það er þó óþarfi að hafa þykkar kápur og úlpur fremst í skápnum.
Á sumrin er aðalklæðnaðurinn ökklabuxur, casual hlýra- og stuttermabolir, þægilegir sumarkjólar og flottir sumarsandalar. Flestir eiga klassísk sumarföt sem þeir geyma frá ári til árs eins og fallega sumarkjóla sem virðast ganga óháð trendum. En það er þó alltaf tilefni til að skoða hvort maður geti nú ekki bætt einhverju við. Þar sem sumarið hér er nú ekki það besta sem gerist er kannski óþarfi að byrgja sig upp af léttum og efnislitlum flíkum, en það er best að byrja að kaupa sumarfötin um leið og það er veður til, svo það sé nú hægt að nýta þau.
Þetta árið verða blómamunstur vinsæl, eins og flestir hafa nú tekið eftir. Það er aftur á móti ekki víst að það verði svo vinsælt næsta sumar, þannig að ekki eyða of miklum peningum þar. Það jafnast samt ekkert á við fallegan chiffon blómakjól. Gladiator sandalar eru einnig möst, en þeir eru ekki eins trend-háðir, þ.e.a.s. þeir hafa núna verið vinsælir nokkur sumur í röð. Best er að kaupa ekki of ýktar týpur, heldur halda sig við nokkur bönd og ólar. Þannig eru meiri líkur á að þeir gangi á næsta ári. Í raun er þó algjör óþarfi að fjárfesta í mikið af flíkum, sérstaklega ef þú átt nokkra létta sumarkjóla, buxur í ökklasídd eða sem eru á miðjum kálfum, smart sumarsandala og nóg af bolum af ýmsum gerðum til að nota lag á lag. Það sem gefur þessu öllu saman lit og líf er skart og aukahlutir. Hálsmen, sólgleraugu og stór strandtaska er allt sem þarf!
Mynd af sýningarpalli Stella McCartney; blómkjóll & sandalar Topshop.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 17:22
Vinnufatnaður útfrá tískustraumum sumarsins
Nú þegar sumarið er að koma með nýjum straumum þá er ekki úr vegi að endurskoða fataskápinn og gera pláss fyrir ný sumarföt. Vinnufatnaður er eitthvað sem þarf einnig að skoða í þessu samhengi. Þar sem skápurinn fyllist oft af léttum sumarkjólum og pilsum á sumrin getur stundum verið snúið að finna vinnufatnað sem er léttur en einnig fagmannlegur.
Vinnustaðir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og því mismunandi hvaða fatnaður er við hæfi í hverri stöðu. Ég mun gefa ýmsar hugmyndir og reyna að sýna ólíkar samsetningar svo allir geti fengið einhvern innblástur.
Það er þrennt sem er vert að fjárfesta í fyrir sumarið af nýju trendunum sem geta vel gengið sem vinnufatnaður. Það fyrsta eru þægilega víðar buxur, helst ökklabuxur, en þær eru algjört möst. Það er smart að þær séu svolítið slouchy, þ.e.a.s. liggja ekki þröngt að líkamanum, heldur leika um hann. Þótt að sniðið eigi að vera nokkuð vítt þarf að passa að þær sitji vel á mjöðmunum. Litirnir skulu frekar vera plain heldur en hitt svartur, navy blár, grár og beige koma þar sterkir inn. Buxur af þessu tagi eru fyrst og fremst þægilegar en bera samt sem áður með sér klassískan og fágaðan stíl. Bæði er hægt að vera í fallegum gladiator söndulum eða háum hælum við þessar buxur.
Annað sem mun vera heitt í sumar eru útvíð pils. Þau verða í nokkrum síddum, en hnésíð hæfa best hér. Ekkert of stutt og alls ekki of mikla vídd og rykkingar. Við viljum forðast of mikinn volume og leitumst frekar eftir pilsum sem bera fallega vídd. Þau koma best út ef þau sitja í mittinu til að gefa sem mestan kvenleika. Ef pilsið er dökkt ættu svartar sokkabuxur að vera í lagi við, en berir leggir eru samt alltaf flottastir við þessa tegund af pilsum. Til að jafna út hlutföllin passa aðsniðnir jakkar, hugsanlega frekar stuttir, vel við. Ef pilsið er of kvenlegt getur stuttur, hrár biker leðurjakki verið smart. Það skiptir ekki öllu hvað er klæðst að ofan, ef það er haft að leiðarljósi að það sé frekar þröngt til að spila á móti víddinni. Fyrir plain útgáfu, getur gengið ágætlega að girða hvítan hlýrabol ofan í svart pils og vera svo í stuttum, svörtum jakka sem er aðeins tekin í mittið. Háir hælar eru besti kosturinn hér, þar sem það verður athygli á skóna.
Þá er komið að efri partinum og því þriðja sem er vert að eigna sér fyrir sumarmánuðina er vesti. Þá er ég ekki að meina vestin sem hafa verið vinsæl hér á landi undanfarið, heldur eru þessi aðeins efnismeiri og mætti meira líkja við ermalausa jakka. Það getur verið mjög flott að nota þunnt belti í mittið eins og margir hönnuður gerðu, en einnig er í lagi að láta það vera aflíðandi svo það sýni ekki of miklar línur. Hlýrabolir ganga vel undir, en þar sem berir handleggir gætu verið of mikið af sýnilegu skinni þá er afbragðshugmynd að klæðast fallegum stuttermabol innan undir. Þá er annað hvort hægt að setja belti í mittið, hneppa eða hafa vestið opið. Engir sérstakir litir eru betri en aðrir, frekar þarf að huga að sniðinu.
Annað sem flestir ættu að eiga í skápnum eru léttar gollur, bæði síðar og styttri, sem passa sérstaklega vel við ökklabuxurnar. Plain hlýrabolir í ýmsum pastellitum eru einnig nauðsynlegir í skápinn ásamt stuttermabolum flott er að nota hlýrabolina lag yfir lag (layered). Hvað stuttermaboli varðar finnst mér persónulega allaf v-hálsmál smekklegast, það lengir hálsinn og gefur stílhreinna yfirbragð. Þeir eru tilvaldir undir fína jakka og passa nánast við hvað sem er. Veglegir sumarsandalar eitthvað sem allir ættu að eiga. Sandalar eiga það oft til að vera lélegir og því skiptir máli að velja þá vel. Gladiator sandalar verða vinsælir í sumar og er því sniðugt að fjárfesta í einu pari.
Aukahlutir skipta miklu máli þegar hugsað er um vinnufatnað. Þar sem skærir litir og framúrstefnuleg snið eru ekki vænlegur kostur fyrir skrifstofuna, þá geta statement aukahlutir gert gæfumuninn og poppað upp á klæðnaðinn. Dæmi um flotta aukahluti sem eru smart við plain liti og klassísk snið, eru gladiator hælar eða aðrir edgy skór. Töskur í skemmtilegum áferðum og litum koma einnig stórlega til greina. Penir skartgripir eru oft betri kostur en eitthvað áberandi og það hæfir betur á vinnutíma. Hins vegar er tilvalið að hafa ávallt eins og eitt stykki cuff armband og kokkteil hring tilbúið í töskunni fyrir drykki eftir vinnu eða önnur fínni tilefni.
Annað sem skiptir einnig miklu máli eru smáatriði á flíkunum og gæði þeirra. Falleg smáatriði og vel unnin handbrögð er eitthvað sem alltaf er tekið eftir.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 17:45
Hvernig er best að klæðast sumartrendunum
Ég vil benda á að allar færslurnar hér fyrir neðan eru af hinu blogginu mínu - tiska.blog.is - ég hef fært þær yfir af því, en mun einungis blogga hér í framtíðinni. Vonandi fylgjast sem flestir með og ég vil þakka fyrir öllu góðu kommentin enn og aftur :)
- - -
Oft getur verið erfitt að átta sig á hvernig sé best að klæðast hinum ýmsu tískustraumum líðandi stundar. Sérstaklega þar sem fæstir hafa líkamsvöxt á við fyrirsætur, og þær því ekki besta fyrirmyndin. Ég ætla að útskýra og koma með hugmyndir um hvernig hægt er að klæðast 8 helstu sumartrendunum (sem ég setti á bloggið fyrir svolitlu). Hvað einkennir þau, hvað ber að varast o.s.frv. Það ætti að koma sér vel núna þegar sumarvörur eru í óða önn að birtast í verslunum.
1. Rómantík
Það sem einkennir rómantíska trendið eru fjaðrir, pífur, létt efni og fölir litir. Pífur og rufflur (ruffles) verða sérstaklega vinsælar. Hvað fjaðrir varða, þá getur verið erfitt að klæðast þeim án þess að þær séu örlítið búningalegar. Það eru því frekar smáatriðin sem gilda þar og einnig aukahlutir. Fjaðraður kjóll getur þó verið flottur ef hann er látinn vera aðalatriðið og öðru í útlitinu haldið minimalísku og nútímalegu. Chiffon efni koma sterk inn og litirnir eru frekar hreinir og ljósir.
2. Blómamunstur
Þetta er trend sem hefur náð miklum vinsældum nú þegar. Það sem einkennir það eru blómamunstur af ýmsum gerðum og stærðum. Flottast er þegar munstrin eru á léttum sumarkjólum, pilsum og þunnum blússum. Rufflur henta vel hér og svolítill hippafílingur er bara af hinu góða. Gladiator sandalar henta vel við þetta munstur, þar sem þeir gefa því aðeins hrárra lúkk. Best er að leita eftir örsmáum blómum eða frekar stórum, meðalvegurinn getur haft með sér of mikinn fortíðarfíling.
3. Gegnsæ efni
Eftir harða útlit vetrartískunnar kemur meira sakleysi. Þetta trend einkennist af mismunandi lituðum efnum sem hafa það sameiginlegt að vera þunn og gegnsæ. Það er best að hugsa vel um hverju maður klæðist undir og varast skal að hafa þau þröng. Gegnsæu efnin koma best út ef þau eru frekar litlaus og því fallegra að klæðast sterkari litum undir.
4. Útvíð pils
Pilsatrendið einkennist af mikilli vídd og kvenleika. Þau geta verið í ýmsum síddum en forðast skal að þau séu síðari en hnén, sérstaklega ef víddin er mikil. Mismiklar rykkingar eru í pilsunum og best að þær séu meiri í stuttum pilsum heldur en síðum. Þau þurfa að vera há í mittið og draga það inn til að fá athyglina þangað. Hvað efri partinn varðar, þá henta aðsniðnir bolir, jakkar og blússur best ef tekið er tillit til hlutfalla. Leggirnir skulu vera helst vera berir, leggings eru allavega bannaðar.
5. Innblástur frá Afríku
Afríkutrendin einkennast af klæðnaði í safarístíl og munstrum innblásin frá ættbálkum Afríku. Safarístíllinn hefur verið vinsæll síðastliðin sumur, en nú er hann fágaðri og litirnir frekar í beige tónum heldur en mosagrænum. Ermalaus skyrtukjóll er gott dæmi um hvernig má ná þessu lúkki. Hvað munstrin varðar koma batík og ikat hvað sterkust inn.
6. Mjó belti
Beltin hafa frekar verið í breiðari kantinum undanfarið, en með sumrinu koma mjó belti. Stíllinn er frekar grófur og brúnir tónar eru vinsælir. Það þykir smart að hafa þau svolítið löng og beygja það svo inn og láta endann hanga aðeins niður eða setja hnút. Flottast er að nota þau til að draga inn mittið á víðum og síðum kjólum í fyrirferðamiklum efnum.
7. Ökklabuxur
Aðalbuxnatrend sumarsins er án efa ökklabuxur. Þær einkennast af sídd sem er rétt fyrir ofan ökklann og eru þægilega víðar. Hægt er að nota buxur í venjulegri sídd og bretta svo upp á faldinn, hönnuður sýndu það í flestum tilfellum. Fallegir sumarsandalar henta einstaklega vel við buxurnar, sem og léttir jakkar.
8. Listræn áhrif
Munstur eru stór partur af sumartískunni og mátti gæta ýmissa listræna áhrifa. Þar sem kjólar í þessum munstrum eru oftast frekar fínir er best að klæðast þeim við aðeins fínni tilefni. Hér þarf að passa upp á hlutföllin, þar sem kjóllinn er áberandi skal varast að annað taki ekki athyglina af honum, eða geri útlitið flóknara.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 16:27
Tískubransinn á Íslandi
Maður er alltaf að heyra að íslenski tísku- og hönnunarbransinn sé að stækka og alltaf fleiri og fleiri hönnuðir að koma fram á sjónarsviðið. Ég er sammála því að bransinn er að stækka og hönnuðum að fjölga og úrvalið þar af leiðandi aldrei verið eins meira, en það er þó alltaf hægt að gera meira og gera betur.
Ef við tökum fyrst fjölmiðla. Fyrir það fyrsta er enginn almennilegur fjölmiðill sem miðast að tískubransanum - hvort sem það er alþjóðleg tíska eða innlend hönnun. Við höfum Nýtt Líf sem ég myndi frekar kalla lífstílsstímarit frekar en tískutímarit, þar sem blaðið býður uppá svo margt annað. Það var þó að skipta um stefnu og það sem ég hef séð af nýju útgáfunni er í rétta átt. Þannig við í rauninni höfum ekkert almennilegt tískutímarit sem fjallar um útlenda tískustrauma og ýmislegt innlent í senn. Við þurfum ekki annað en að líta til Norðurlandanna þar sem hið danska Costume og sænska Modette eru mjög vinsæl tískutímarit. Hingað til hafa íslenskir hönnuðir mjög mikið þurft að treysta á 'munnlega auglýsingu' eða umfjöllun í dagblöðum. Munnlega auglýsingin er svo sem skiljanleg þar sem Ísland er nú ekki stórt og oft geta þær verið árangursríkar, en væri ekki miklu betra að hafa einhvern aðgengilegan (og fagmannlegan) miðil?
Ef við tökum næst fyrir eitthvað sem tengir hvað mest tískubransann saman fyrir utan tímarit og fjölmiðla, þá eru það tískuvikur. Margir hugsa til New York, Parísar, Mílanó o.s.frv og finnast kannski Ísland ekki vænlegur kostur fyrir svo stóran atburð, en tískuvikur eru þó algengar í mörgum minni borgum. Auðvitað eru þær þá bara í samræmi við stærð borganna og landanna og því augljóst að íslensk tískuvika yrði seint einhver alþjóðleg tískuvika. Það sem er samt svo gott við tískuvikur í stað einstaka tískusýninga, er að þær þjappa iðnaðinum saman. Hönnuðir fá jafnvel umfjöllun um sig í erlendum fjölmiðlum og því er auglýsingin mikil og tækifærin fyrir nýja hönnuði frábær. Ég veit að það var starfrækt íslensk tískuvika hér á landi í einhver ár og að mínu mati var hún ekkert æðisleg, þótt nokkuð hafi verið um flotta hönnun. Ég man nú ekki af hverju hún leystist upp, en mig minnir að skipulagsleysi eða ósætti hönnuða við skipuleggjendur hafi verið málið (ef einhver man hvað kom uppá, endilega segið mér!). Núna hinsvegar er bransinn búinn að stækka svo mikið, að almennileg tískuvika væri einungis til góðs.
Íslensk hönnun hefur einungis orðið til hins betra á síðustu árum og við erum að sjá meiri gæði. Við lítum meira til útlanda fyrir innblástur og þessi þjóðlega hönnun með tilheyrandi fiskaroði, minkafeldum og því öllu, er að hverfa. Ef ég þarf hins vegar að segja eitthvað sem mér finnst að mætti fara betur, þá getur hönnunin verið svolítið einsleg stundum, þ.e.a.s hönnuðir eru kannski að gera eitthvað svipað og aðrir. Einnig finnst mér svolítið um algjörlega ómenntaða 'hönnuði' sem eru að selja flíkur og annað. Þótt það sé ekkert að því að vera ómenntaður þá verða gæðin og handbragðið því miður ekki alltaf góð. Það er akkúrat þessi einsleita hönnun sem á hér við. Annars fagna ég öllum þessum nýju og fersku hönnuðum og það er rosalega gaman að sjá til dæmis hvað nemendur Listaháskólans, núverandi eða fyrrverandi, eru að gera spennandi hluti.
Ég veit að það eru eflaust einhverjir sem lesa þennan pistil og spyrja af hverju ég sé að velta þessu fyrir mér. Er Ísland ekki bara það lítið, að það er ekki markaður fyrir tískutímarit og skipulagða tískuvirðburði? En miðað við þróunina og ef við lítum á hvað Íslendingar eru uppteknir af tísku almennt þá er það mér hugsunarefni hvort ekki væri hægt að bæta stöðuna, bæði fyrir hönnuði og annað tískufólk, en einnig fyrir þá sem vilja njóta og fylgjast með tískunni.
Endilega komið með ykkar pælingar og skoðanir hvort sem þið eruð sammála og ósammála.
Greinar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)