18.12.2008 | 00:26
Ný kynslóð breskra hönnuða
Danielle Scutt, House of Holland, Louise Goldin, Mark Fast, Mary Katrantzou, Meadham Kirchhoff, Nasir Mazhar og Peter Pilotto fengu öll all eftirsóknaverðan styrk, Ný kynslóð, á dögunum frá Breska tískuráðinu. Styrkurinn, sem er styrktur af Topshop, mun vera ætlaður til notkunar fyrir tískuvikuna í London í febrúar. Fyrir utan fyrrnefnd nöfn fengu einnig fleiri upprennandi hönnuðir styrki til að sýna á sýningu á tískuvikunni í London.
Styrkurinn Ný kynslóð var settur á stofn árið 1993 og hefur hjálpað stórum nöfnum á borð við Alexander McQueen, Matthew Williamson og Jonathan Saunders að þróa merki sín. Styrkurinn er því virtur og talinn góður stuðningur við hæfileikaríka hönnuða í iðnaðinum.
"Ný kynslóð er einn elsti hlekkur hönnunarstuðnings Breska tískuráðsins. Hann er alþjóðlega þekktur fyrir að styðja bestu hönnuði London og á met fyrir að hjálpa til að stofnsetja merki sumra af virtustu hönnuðum heims," segir formaður tískuráðsins, Hilary Riva. "Ég efa ekki að þessir nýju hönnuðir munu þróa árangursríka ferla í bransanum."
Mary Homer, stjórnandi Topshop bætir við "Á tímum efnahagskreppu er stuðningur við efnilega hönnuði mikilvægari en vanalega og helst því sem forgangur innan stefnu merkisins. Við erum sérstaklega spennt yfir flóru hæfileikanna sem við styrkjum þetta ár sem ásamt öðrum inniheldur hattahönnuði, skóhönnuði og prjónaflíkusérfræðing."
17.12.2008 | 23:52
Kanye West vill vinna í tískuheiminum
Kanye West hefur ekki haldið því leyndu að hann vilji feta í fótspor P.Diddy og riðja sér leið í tískuheiminum, og London virðist vera staðurinn fyrir þá tilraun. Hann hefur tilkynnt að hann muni setja tónlistarferilinn á pásu, flytja til Bretlands og byrja á botni tískubransans til að læra undirstöðuatriðin sem hann þarf til að hanna fyrstu tískulínu sína, Pascalle.
"Ég ætla að taka lærlingastöðu og gera eitthvað sem er venjulegt og rappa svo um helgar eða eitthvað," hefur hann sagt. Heimildir herma að hann ætli að m.a. að sækja um hjá Louis Vuitton og Raf Simons. Þar segir einnig að fólk sé hissa á hversu alvarlega hann tekur þennan tískudraum sinn. Hann er sagður elska London og vill hann fá eins mikla reynslu af tískunni og hann getur.
17.12.2008 | 18:08
Skótíska vetrarins
Skótískan fyrir veturinn var eins margbrotin og hægt er. Trendin spanna ýmist tær, hæla eða áferð skónna.
Tær
Tvær gerðir táa voru hvað vinsælastar, en það eru annars vegar oddmjóar tær og svo kassalaga. Oddmjóu tærnar eru ekki líkt og þær voru, heldur eru þeir frekar framtíðarlegir og hönnunin fersk. Kassalaga tær er svolítið nýtt og djarft, en kærkomin viðbót við oddmjóar og rúnnaðar tær. Kassalaga birtust þær oft með hælum í þykkara lagi, á meðan oddmjóu tærnar voru á skóm með pinnahæla.
Hælar
Hælarnir voru ekkert allt of frábrugðnir því sem hefur verið. Pinnahællinn er ennþá jafn vinsæll og var oftast mjög hár. Þessir örmjóu hælar eru kynþokkafullir og því hærri því betri. Hér er stuðningur við fótinn í lágmarki, en hann vantar aftur á móti ekki þegar þykkir hælar eru annars vegar. Þeir voru bæði kassalaga og sívalningslaga en áttu það sameiginlegt að vera hálfklunnalegir. Keilulagahælar er eitthvað sem brúar bilið á milli tveggja fyrstu hælagerðanna, en þeir eru þykkir að ofan en mjókka þegar neðar dregur. Bogi að utanverðum hælnum er frekar algengur af þessari tegund hæla. Þessir eru nútímalegir en gætu verið fjarandi trend þó þeir séu góð nýjung í hælaflóruna.
Áferð
Ýmis skinn af skriðdýrum sást á skóm fyrir veturinn. Skinnin voru á stígvélum, opnum hælum, ökklahælum og í raun hverju sem er. Þau voru af krókódílum, eðlum og snákum og í ýmsum litum. Skriðdýraskinn gefa framandi fíling og bera yfir sér lúxus. Önnur áferð sem hefur fengið mikla athygli er rússkinskögur á skóm. Það birtist aðallega hjá Gucci og Balmain í svörtu. Kögur er í etnískum og bohemian stíl sem ber jafnan yfir sér kæruleysisbrag en skórnir hafa þó verið paraðir saman við goth, grunge og aðra hráa og dökka stíla fyrir andstæður.
Skór | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 16:23
Stuttar klippingar
Það virðist sem stuttar klippingar séu algjörlega málið í dag. Fyrirsætur hafa klippt langa lokka sína í stórum stíl og stjörnurnar einnig. Nýjasta dæmið er án efa Victoria Beckham, sem lét bob klippinguna víkja fyrir drengjakolli. Fyrirsæturnar Agyness Deyn, Freja Beha Erichsen og Anja Rubik urðu allar mjög vinsælar að hluta til vegna beinskeyttar klippingar sem ýtir undir sjálfstæða persónuleika þeirra. Klippingin er orðin partur af ímyndinni.
Stutt hár þarf að vera vel klippt enda stór yfirlýsing. Það þarf að bera með sjálfstrausti enda eru það oftast sterkar týpur sem leggja í breytingar sem þessar. Mörgum finnst stutt hár elda konur, en ef rétt er farið að og réttar vörur notaðar til að stílisera hárið, getur það frekar yngt og veitt ferskara yfirbragð. Það er líka nauðsynlegt að breyta til öðru hverju, enda verðum við þreytt á því að vera með eins klippingu of lengi. Það er því tilvalið að stytta langa lokka fyrir smart klippingu og muna eftir stoltinu.
Fegurð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 14:47
Gallabuxur frá strákunum
Gallabuxnatrendið sem hefur verið mjög vinsælt í haust og nú áfram fram í veturinn eru kærastagallabuxur (boyfriend jeans). Stjörnurnar hafa verið að klæðast þessu trendi mikið en það er Katie Holmes sem hefur þó verið duglegust að klæðast þeim. Fjölbreytileikinn er allsráðandi því þær stjörnur sem hafa sést í buxum sem þessum eru af öllum aldri og hafa þær bæði klæðst þeim við flatbotna skó sem og flotta hæla. Þar sem buxurnar eru brettar upp frá ökklanum er best að velja skóna vel þar sem þeir verða vel sýnilegir.
Til að vinna þetta trend þurfa nokkrir hlutir að vera á hreinu. Buxurnar þurfa að vera svolítið snjáðar og í víðari kantinum, en þurfa þó að passa vel um mjaðmirnar. Hvort sem buxurnar eru of síðar eða ekki, er svo aðalmálið að bretta aðeins uppá þær að neðan. Þótt sniðið sé oftast beint (eins og t.d. Levis 501), fer ekki öllum að vera í beinum gallabuxum og þá er bara að reyna að finna par sem er aðeins aðsniðara.
Trend | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 16:27
Beanie húfur
Á eins köldu landi og Íslandi, er alltaf gott þegar hlýr fatnaður kemur í tísku. Loðfeldir hafa sem betur fer fengið auknar vinsældir upp a síðkastið, en það nýjasta í vetur eru beanie húfur. Þær eru svolítið töffaralegar og fara því betur við hversdagsfatnað heldur en fínni föt, þó það sé alveg hægt að nota húfuna til að spila niður fínheit.
Húfurnar koma misstórar og úr mismunandi efni og því hægt að finna ýmsar útgáfur. Burberry Prorsum sýndu t.d. lúxusútgáfu sem komu í skemmtilegum áferðum. Alexander Wang hélt hlutunum einföldum með svörtum og gráum bómullarhúfum, en hann sýndi þó líka nokkrar úr dásemdar angóruull sem hafa nú þegar orðið vinsælar.
14.12.2008 | 19:16
Fyrirsætan Erin Wasson
Erin Wasson velur sér oft óvenjulega leið hvað stíl sinn varðar. Hún er innblástur fatahönnuðarins Alexander Wang enda hefur hún sjálfstæðan persónuleika og veit hvað hún vill. Fyrir utan að vera sérstakur stílisti Wangs er hún einnig fyrirsæta og hefur birst á forsíðum margra þekkta tímarita auk þess að hafa verið í ýmsum auglýsingum. Aðeins hefur dregist úr fyrirsætustörfum uppá síðkastið eftir að hún hannaði skartgripalínuna LowLuv og nú síðast fatalínu fyrir lífstílsmerkið RVCA sem er vinsælt hjá ýmsu brettafólki.
Wasson er upprunalega frá Texas og segir uppeldið í fylkinu eiga stóran þátt í velgengni sinni ,,þú getur ekki tekið Texas úr stelpunni. Ég hefði ekki komist svona langt í tískuheiminum ef ég hefði ekki haft smá af þessari suðurríkjagestrisni." Hvort uppeldið hafi eitthvað með stíl hennar að gera er spurning, en hann er mjög þægilegur og einfaldur á töff hátt. Hún hefur ekki hikað við að klæðast áhættusömum samsetningum á rauða dreglinum, enda galakjóll ekki alveg hennar stíll.
Djarfleikinn er hennar aðalsmerki og eitt af því sem hefur gert hana vinsæla. Haft hefur verið eftir henni í viðtali að ,,heimilislaust fólk sé töff, en hún aðhyllist frekar óklárað lúkk hárið er alltaf svolítið úfið, hún ber litla förðun, fötin eru stundum viljandi rifin og hún virðist klæðast öllu á svo auðveldan hátt. Það er ljóst að hún hefur ekki þurft að vinna mikið í stílnum, hann er henni eðlislægur og hreinskilinn. Það er hæfileiki að flækja ekki hlutina um of og ná alltaf réttu útkomunni án mikilla pælinga.
Stíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2008 | 18:11
Dökkar varir
Dökkar varir fullkomna goth tísku vetrarins. Þótt varirnar í sýningu Yves Saint Laurent hafi verið kolsvartar með háglansáferð, þarf maður alls ekki svo mikla dramatík í raunveruleikanum. Undir dökkar varir falla allir dumbrauðir og dökkfjólubláir litir, sem og fjólusvartir. Með rétt viðhorf getur dökkur varalitur verið elegant en í senn svolítið framtíðarlegur, og það þarf auðvitað sjálfstraust til að bera svo djarfa liti. Ríkir plómulitir geta gefið svolítið dularfullan og rokkaðan fíling og því er um að gera að nota þessa dökku liti til að undirstrika fatnað í sama tón.
Fegurð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2008 | 13:28
Móment úr tískuvikum næsta sumars
Í hverjum tískuvikum fyrir nýja árstíð eru alltaf sýningar sem standa uppúr, ekki endilega fyrir fallega hönnun heldur fyrir sérstaka sýningu á einhvern hátt. Það getur verið óvenjulegt umhverfi sýningarpallsins, fatnað sem líkist einhverju öðru en fatnaði, skrýtið hár eða virkilega ýkta förðun. Tískuvikur næsta vors og sumar innihéldu að venju nokkrar svonar sýningar.
1. Rick Owens
Tíska hefur stundum fundið sér leið með pólitík (Vivienne Westwood) og trúarbrögðum (Givenchy haust 08), en Rick Owens tengdi sýningu sína fyrir sumarið einmitt trúarbrögðum hann sendi fyrirsætur á sýningarpallana sem nunnur. Sýningin var víst mjög táknræn og áhrifamikil, sérstaklega þegar her af fyrirsætum/nunnum komu út í lokaatriðinu innan um reyk. Rick Owens kann að skapa andrúmsloft í kringum sýningar sínar og þessi var ekki undanskilin. Skuplurnar gáfu annars svörtu og dularfullu fötunum sakleysislegri blæ.
2. Karl Lagerfeld
Íkonið Karl Lagerfeld hefur alltaf verið umdeildur, og talin hálfgjör goðsögn í tískuheiminum. Fyrir utan að hanna fyrir tískurisana Chanel og Fendi, hannar hann undir eigin merki sem heitir í höfuðið á honum. Eitthvað hefur hann þurft að ýta undir ímynd sína enn meira (sbr. bangsann) með því að prenta andlit sitt á tösku sem fyrirsætan Angela Lindvall bar þegar hún þrammaði pallinn. Þótt hugmyndin líti í fyrstu út fyrir að vera einkar hallærisleg og ekkert annað en auglýsing á andliti hans, var handfang veskisins í augastað Karls. Fyrirsætan notaði svo töskuna sem grímu með sínum augum í handfanginu. Það er svo spurning hversu vinsæl Lagerfeld taskan verður.
Margiela er mikill í heimi óraunveruleikans. Kreppa getur látið hvaða hönnuð sem er einbeita sér að því að selja frekar en að fara eftir sínu listrænu insæi. En sem betur fer var Margiela einn af þeim sem hélt ótrauður áfram á sinni braut, þar sem hann sýnir föt sem ögra mannslíkamanum, fulla af tálmynd. Í þetta skiptið voru fyrirsætur andlistlausar, en andlitin voru hulin bakvið efni sem líktist nylonsokkabuxum og sumar fengu meira að segja stóran lubba af hárkollu fyrir andlitið. Hvort hann hafi verið að reyna að gera fyrirsæturnar nafnlausar og viljað hafa alla athygli á hönnun sinni. Það breytir því ekki að hugmyndin var frekar skrýtin og maður hugsar með sér hvort fyrirsæturnar hafi yfir höfuð séð eitthvað.
4. Comme des Garcons
Ásamt Margiela eru Comme des Garcons alltaf á listum sem þessum. Garcons gefa tískunni allt aðra dýpt en hinir almennu hönnuðir. Þeir eru sjaldan taldnir með í trendum, enda ekki hægt að taka þeirra sköpun með annarri hönnun, hún hefur sjálfstæða rödd. Svipað og hjá Margiela, voru fyrirsætur óvenjulegur um höfuðið. En þær virtust bera risastórt kandífloss á hausnum. Fötin voru svört og púffuð í sniðinu, og því var ýkingin í hárinu aðeins að ýta undir ýktina í fötunum.
Það er ekkert lát á gígantískum höfuðprýðum, því Watanabe sýndi einhverskonar hárskreytingu í líkingu við þær sem afrískar konur bera. Þessar voru reyndar fylltar með blómum í litríkum klútum og báru svo sannarlega með sér sumarlegan blæ. Með fuglasöng sem undirspil sýningarinnar og alla litadýrðina voru túrbanin einungis punkturinn yfir i-ið og kórónuðu allt hitt. Þótt hönnun Watanabe sé kannski ekki allra smekkur, er ekki hægt annað en að ganga glaður út af svona sýningu.
6. Marni
Marni hafa ekki verið þekktir fyrir of mikla dramatík. Þótt litir séu algengir í þeirra sýningum er vanalegast ekki mikið um virkilega óvenjulega eða áberandi hönnun fyrir utan aukahlutina. Fyrir nokkrum árstíðum urðu stór hálsmen Marni virkilega vinsæl og nú hafa þeir aftur komið með ekki bara hálsmen heldur einnig eyrnalokka í virkilegri yfirstærð. Virtust þessir hlutir vera úr einhverskonar jarðlegu efni eins og skeljum eða öðru þvíumlíku. Það vantaði ekki litina eins og hjá Marni yfir höfuð, en sumir segja að þeir hafi farið of langt með stærð hlutanna. Öðrum finnst að hálsmenið geti notið sín vel án eyrnalokkanna og öfugt. Skartið eru allavega umdeilt og gaman verður að sjá hversu klæðilegir þeir verða þegar nær dregur sumri.
7. Fendi
Hér er Karl Lagerfeld aftur að verki, en hár fyrirsæta hjá Fendi var í hálfgerri óreiðu. Þetta gerist þegar hárgreiðslumanninum eru gefnir margir brúsar af hárspreyi og sagt að gera big hair. Útkoman var vægast sagt mögnuð þótt sumum hafi fundist hárið of úfið fyrir svo virt tískuhús og virta hönnun. Suzy Menkes lýsir þessu ágætlega ,,óvenjulegt hárið, blásið fram eins og rafmagnaður stormur hafi gengið yfir. Að þessu sögðu, þá var hárið eiginlega bara frekar fyndið en eitthvað annað.
8. Viktor & Rolf
Sýning Viktor og Rolf að þessu sinni var ekki af eins mikilli stærðargráðu og hefur verið og virtust þeir einbeita sér að frekar klæðilegum flíkum allavega miðað við áður. Kannski kreppan hafi áhrif á þá ákvörðun, en þetta eru samt ekki miklar kreppuflíkur, margar hverjar alskreyttar demöntum. Síðasti klæðnaðurinn sem kom fram var kjóll sem virtist vera innblásinn af kuðungi í sniði. Fyrsta lúkkið sem fór fram var einnig með keim af sama sniði, en lokunarlúkkið var svona til að toppa allt til að sýna að þeir geta enn komið með eitthvað virkilega öðruvísi.
Tískusýningar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2008 | 16:04
Kjólatrendin fyrir jólin
Þegar jólin nálgast fara allir að leita sér að hinu fullkomna jóla- og áramótadressi, sem er oftar en ekki glamúrkjóll. Jólafatakaupin verða samt eflaust með öðru sniði í ár en fáður, það tíma líklega fáir að kaupa sér rándýran hönnunarkjól. Ódýrari verslanir bjóða upp á fína kjóla á oft ágætu verði, en annars er líka hægt að sjá hvað maður á í skápnum. Ef á að nota eitthvað sem fyrir er til, skipta réttu aukahlutirnir öllu máli. En kjólar komu í ýmsum gerðum á sýningarpöllum fyrir veturinn sem er að líða og hér munu verða sýndar hugmyndir að kjólum í sambandi við liti, skraut og snið.
Dökk rómantík
Eitt af því sem var mest áberandi var svartur. Þótt margir leiti eftir kjól í einhverjum lit, getur svartur kjóll verið virkilega áhugaverður og voru þeir það almennt með öllu gothinu og dökku rómantíkinni fyrir veturinn. Það er best að einbeita sér frekar að rómantísku hlið gothsins og leyfa leðri og leðurlíki að eiga sig, allavega yfir jólin áramótin eru svo annar liður. Svartur kjóll með annaðhvort blúndusmáatriðum eða gegnsæju efni að hluta til er tilvaldið fyrir þetta lúkk. Einnig er hægt að klæðast einföldum svörtum kjól við blúndusokkabuxur. Yfir áramótin er þess vegna hægt að skipta blúndusokkabuxunum út fyrir leðurlíkisleggings. Ef kjóllinn er ermalaus er blazer jakki góður yfir, sérstaklega jakkar með silki eða öðru svipuðu efni í kraganum.
Sterkir litir
Eins og alltaf var þó nokkuð af fallegum og líflegum litum á pöllunum. Litirnir sem eru að gera sig í þetta skiptið eru sterkir bleikir, fjólubláir, grænir og djúpblár, en gulur var einnig áberandi. Því miður getur gulur oft misheppnast svolítið og því fer það algerlega eftir sniðinu hvort það virki. Fjólubláir verða líklegast vinsælastir en flottastir að mínu mati eru dekkri tónar af fjólubláum í stað þess skæra sem er búin að vera vinsæll. Silkikjóll undirstrikar áberandi liti vel, þannig fallegur kjóll úr silki í nánast hvaða lit sem er hentar vel. Sniðið þarf ekkert að vera flókið, kjóll sem er passlegur að ofan en heldur svo áfram beint niður er klæðilegur, þar sem silki hentar ekki alltaf aðsniðið. Annar möguleiki er að láta áhersluna vera á smáatriði á borð við rufflur, rykkingar o.þ.h. í stað efnisins, eitthvað sem gerir kjólinn meira spennandi.
Glamúr
Þriðja trendið hentar líklega betur yfir áramótin en er alveg eins hægt að tóna niður fyrir jólin. Hér eru það pallíettur og glanssteinar sem sýna glamúrinn. Kjóllinn þarf ekkert endilega að vera þakinn pallíettum eða öðru álíka, heldur getur oft verið flott þegar skreytingin er aðeins á hluta kjólsins. Annar möguleiki eru pallíettuleggings við lágstemmdari topp sem nær niður á ofanverð lærin. Persónulega finnst mér navybláar pallíettur miklu flottari en pallíettur í silfri eða gull. Þær geta orðið svolítið 'cheap', en navyblár ber yfir sér einhverja fágun, auk þess sem navybláar pallíettur voru mjög áberandi á sýningarpöllunum. Einnig er flott að klæðast pallíettukjól með blöndu af lituðum glanssteinum. Litaðir steinar gefa ennþá meira líf í glitrið.
.
Kíkið í vintage búðir sem eru stútfullar af pallíettukjólum, en verslanakeðjur eins og Warehouse, Topshop, Zara, Oasis, All Saints eru góðar fyrir svipuð trend á góðu verði.
P.S. Ég mun blogga daglega fram að áramótum, þannig verið viss um að kíkja daglega fyrir nýja tískuumfjöllun! Einnig vil ég hvetja alla til að skrifa athugasemdir við færslur og segja sína skoðun, hvort sem hún er með eða á móti en einnig er velkomið að koma með spurningar eða einfaldlega hvað sem er :)
Trend | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)