17.12.2008 | 18:08
Skótíska vetrarins
Skótískan fyrir veturinn var eins margbrotin og hægt er. Trendin spanna ýmist tær, hæla eða áferð skónna.
Tær
Tvær gerðir táa voru hvað vinsælastar, en það eru annars vegar oddmjóar tær og svo kassalaga. Oddmjóu tærnar eru ekki líkt og þær voru, heldur eru þeir frekar framtíðarlegir og hönnunin fersk. Kassalaga tær er svolítið nýtt og djarft, en kærkomin viðbót við oddmjóar og rúnnaðar tær. Kassalaga birtust þær oft með hælum í þykkara lagi, á meðan oddmjóu tærnar voru á skóm með pinnahæla.
Hælar
Hælarnir voru ekkert allt of frábrugðnir því sem hefur verið. Pinnahællinn er ennþá jafn vinsæll og var oftast mjög hár. Þessir örmjóu hælar eru kynþokkafullir og því hærri því betri. Hér er stuðningur við fótinn í lágmarki, en hann vantar aftur á móti ekki þegar þykkir hælar eru annars vegar. Þeir voru bæði kassalaga og sívalningslaga en áttu það sameiginlegt að vera hálfklunnalegir. Keilulagahælar er eitthvað sem brúar bilið á milli tveggja fyrstu hælagerðanna, en þeir eru þykkir að ofan en mjókka þegar neðar dregur. Bogi að utanverðum hælnum er frekar algengur af þessari tegund hæla. Þessir eru nútímalegir en gætu verið fjarandi trend þó þeir séu góð nýjung í hælaflóruna.
Áferð
Ýmis skinn af skriðdýrum sást á skóm fyrir veturinn. Skinnin voru á stígvélum, opnum hælum, ökklahælum og í raun hverju sem er. Þau voru af krókódílum, eðlum og snákum og í ýmsum litum. Skriðdýraskinn gefa framandi fíling og bera yfir sér lúxus. Önnur áferð sem hefur fengið mikla athygli er rússkinskögur á skóm. Það birtist aðallega hjá Gucci og Balmain í svörtu. Kögur er í etnískum og bohemian stíl sem ber jafnan yfir sér kæruleysisbrag en skórnir hafa þó verið paraðir saman við goth, grunge og aðra hráa og dökka stíla fyrir andstæður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.