12.12.2008 | 16:04
Kjólatrendin fyrir jólin
Þegar jólin nálgast fara allir að leita sér að hinu fullkomna jóla- og áramótadressi, sem er oftar en ekki glamúrkjóll. Jólafatakaupin verða samt eflaust með öðru sniði í ár en fáður, það tíma líklega fáir að kaupa sér rándýran hönnunarkjól. Ódýrari verslanir bjóða upp á fína kjóla á oft ágætu verði, en annars er líka hægt að sjá hvað maður á í skápnum. Ef á að nota eitthvað sem fyrir er til, skipta réttu aukahlutirnir öllu máli. En kjólar komu í ýmsum gerðum á sýningarpöllum fyrir veturinn sem er að líða og hér munu verða sýndar hugmyndir að kjólum í sambandi við liti, skraut og snið.
Dökk rómantík
Eitt af því sem var mest áberandi var svartur. Þótt margir leiti eftir kjól í einhverjum lit, getur svartur kjóll verið virkilega áhugaverður og voru þeir það almennt með öllu gothinu og dökku rómantíkinni fyrir veturinn. Það er best að einbeita sér frekar að rómantísku hlið gothsins og leyfa leðri og leðurlíki að eiga sig, allavega yfir jólin áramótin eru svo annar liður. Svartur kjóll með annaðhvort blúndusmáatriðum eða gegnsæju efni að hluta til er tilvaldið fyrir þetta lúkk. Einnig er hægt að klæðast einföldum svörtum kjól við blúndusokkabuxur. Yfir áramótin er þess vegna hægt að skipta blúndusokkabuxunum út fyrir leðurlíkisleggings. Ef kjóllinn er ermalaus er blazer jakki góður yfir, sérstaklega jakkar með silki eða öðru svipuðu efni í kraganum.
Sterkir litir
Eins og alltaf var þó nokkuð af fallegum og líflegum litum á pöllunum. Litirnir sem eru að gera sig í þetta skiptið eru sterkir bleikir, fjólubláir, grænir og djúpblár, en gulur var einnig áberandi. Því miður getur gulur oft misheppnast svolítið og því fer það algerlega eftir sniðinu hvort það virki. Fjólubláir verða líklegast vinsælastir en flottastir að mínu mati eru dekkri tónar af fjólubláum í stað þess skæra sem er búin að vera vinsæll. Silkikjóll undirstrikar áberandi liti vel, þannig fallegur kjóll úr silki í nánast hvaða lit sem er hentar vel. Sniðið þarf ekkert að vera flókið, kjóll sem er passlegur að ofan en heldur svo áfram beint niður er klæðilegur, þar sem silki hentar ekki alltaf aðsniðið. Annar möguleiki er að láta áhersluna vera á smáatriði á borð við rufflur, rykkingar o.þ.h. í stað efnisins, eitthvað sem gerir kjólinn meira spennandi.
Glamúr
Þriðja trendið hentar líklega betur yfir áramótin en er alveg eins hægt að tóna niður fyrir jólin. Hér eru það pallíettur og glanssteinar sem sýna glamúrinn. Kjóllinn þarf ekkert endilega að vera þakinn pallíettum eða öðru álíka, heldur getur oft verið flott þegar skreytingin er aðeins á hluta kjólsins. Annar möguleiki eru pallíettuleggings við lágstemmdari topp sem nær niður á ofanverð lærin. Persónulega finnst mér navybláar pallíettur miklu flottari en pallíettur í silfri eða gull. Þær geta orðið svolítið 'cheap', en navyblár ber yfir sér einhverja fágun, auk þess sem navybláar pallíettur voru mjög áberandi á sýningarpöllunum. Einnig er flott að klæðast pallíettukjól með blöndu af lituðum glanssteinum. Litaðir steinar gefa ennþá meira líf í glitrið.
.
Kíkið í vintage búðir sem eru stútfullar af pallíettukjólum, en verslanakeðjur eins og Warehouse, Topshop, Zara, Oasis, All Saints eru góðar fyrir svipuð trend á góðu verði.
P.S. Ég mun blogga daglega fram að áramótum, þannig verið viss um að kíkja daglega fyrir nýja tískuumfjöllun! Einnig vil ég hvetja alla til að skrifa athugasemdir við færslur og segja sína skoðun, hvort sem hún er með eða á móti en einnig er velkomið að koma með spurningar eða einfaldlega hvað sem er :)
Meginflokkur: Trend | Aukaflokkur: Verslanir | Breytt s.d. kl. 16:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.