Hönnuðurinn Miuccia Prada

miuccia-prada3Miuccia Prada hefur að mínu mati eina áhugaverðustu ferilsögu hönnuðar. Ástæðan fyrir því, er að hún er ekki ein af þessum hönnuðum sem ‘hafa haft áhuga á hönnun síðan þeir fæddust’ og ‘byrjuðu að sauma þegar þeir voru fimm ára’ og þar fram eftir götunum. Að vissu leyti fékk hún starfið eilítið upp í hendurnar þar sem hún var arftaki krúnu Prada fyrirtækisins, en það virðist aldrei hafa verið ætlun hennar að verða heimsfrægur hönnuður.

Hún er ítölsk, fædd í sjálfri tískuborginni Mílanó árið 1949. Hún er yngsta barnabarn stofnanda Prada, Mario Prada. Hún, ásamt eiginmanni sínum Patrizio Bertelli, tók við fjölskyldufyrirtækinu árið 1978 af móður sinni. Þau hjónin hafa átt mikinn þátt í stækkun fyrirtækisins og juku úrvalið með því að koma fyrst með ready-to-wear línu og þar á eftir ódýrari línuna Miu Miu, sem hefur ekki síður átt við mikla velgengni að fagna. Fyrirtækið selur lúxusvörur um allan heim, er virði margra milljarðra og hjónin hafa þ.a.l verið á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims.

14_pradaMiuccia er hámenntuð, með doktorsgráðu í stjórnmálafræði, hefur lært látbragðsleik og er mikill listaunnandi. Hún hefur því ekki lært tískuhönnun í listaskóla, en það kemur alls ekki niður á hönnuninni. Hún hefur unnið til verðlauna fyrir fallega og hreina hönnun, gæðaefni og frábær handbrögð. Hún hefur þó sagt að velgenginni eigi hún að mörgu leyti eiginmanni sínum að þakka, sem hún hitti rétt áður en hún tók við fyrirtækinu og hefur staðið á bak við hana öll þessi ár. Hann á mikinn þátt í útrás fyrirtækisins á alþjóðamarkaði og inniheldur þetta valdahús nú merki á borð við Fendi, Helmut Lang og Jil Sander.

Miuccia er trú sínum skoðunum og hugmyndum og er það eitt af því sem hefur gert hana einn leiðandi hönnuð heims. Hún eltir ekki, heldur fer sínar leiðir. Hún hélt því alltaf fram að tískuheimurinn væri heimskur og að það væri til gáfaðri og hógværari greinar, en hún hefur nú afsannað það því tíska er listform. Þótt tíska sé yfirborðskennd og tískuheimurinn geti verið grimmur, þá er hún einnig eitthvað sem er fallegt fyrir augað, eins og málverk eða skúlptúr. Eins og hún segir sjálf: "Það sem þú klæðist er hvernig þú sýnir heiminum þig, sérstaklega í nútímaheimi þar sem mannleg samskipti eru svo snögg. Tíska er tungumál augnabliksins."

miucciaprada1
 
prada-miumiu

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband