25.5.2008 | 14:05
Ungir, danskir hönnuðir
Þótt reyndir hönnuðir í Danmörku njóti mikilla vinsælda, er það ný kynslóð af hönnuðum sem eru hvað áhugaverðastir um þessar mundir. Ég ætla að fjalla um nokkra ferska og upprennandi hönnuði af mörgum og sýna hversu framarlega Danir eru að verða á þessu sviði.
Camilla Skovgaard
Camilla Skovgaard er ferskur skóhönnuður og hefur meira að segja hlotist sá heiður að vera kölluð eftirfari Manolo Blahnik. Eftir útskrift árið 2006 tók ítalskt hátísku skófyrirtæki að framleiða hönnun hennar og var stórverslunin Saks í New York fyrstu kaupendurnir á línunni. Hún hefur unnið mörg verðlaun á sínu sviði og kemur það ekki á óvart, enda miklir hæfileikar þar á ferð. Hún notar mikið ýmsar áferðir á leðri og spilar með sterka og fallega liti á móti svörtum. Skórnir eru fágaðir en að sama skapi edgy. Snið skapa stóran sess í línunni og bera margir skórnir framúrstefnuleg og öðruvísi snið. The Times hafa jafnvel komist svo að orði að skórnir séu hátískuútgáfa af hönnun Arne Jacobsen.
Hubert
Hubert er nýlegt merki, hannað af Rikke Hubert. Merkið er ekki skapað af metnaðinum að ná heimsvinsældum heldur af ástríðu hönnuðarins af hönnun. "Ég hanna því ég fæ hugmyndir sem þurfa að komast út úr höfðinu og höndunum." segir Rikke. Merkið hefur nú vaxið fram úr öllum vonum og hefur hún lokað lítilli verslun sinni til að einbeita sér alfarið að útbreiðslu merkisins. "Ég hef alltaf látið hugmyndir augnabliksins verða að veruleika og gert hluti án mikillar íhugunar." segir hún um opnun verslunarinnar strax eftir hönnunarskóla. "Ég sá skilti til leigu og hugsaði með mér að með þessu móti myndi fólk sjá hönnunina mína," en hún vill frekar að fólk uppgötvi merkið af sjálfsdáðum. Stíll Hubert er kvenlegur, einfaldur og listrænn, og er Rikke ekki hrædd við að fara ótroðnar slóðir. "Hvert stykki þarf að geta staðið eitt og sér." segir hönnuðurinn sem vinnur mikið með svartan og lítið með liti. Að hennar sögn stendur svartur fyrir ró og einfaldleika. Rikke stendur ein að fyrirtækinu sínu, "Ég hef mikið á minni könnu og það getur verið erfitt en það er einnig þægilegt að vera með umsjón yfir öllu og gera allt sjálf."
Louise Amstrup
Louise Amstrup er upprennandi danskur hönnuður sem hannar fatnað í dönskum stíl en í alþjóðlegum klassa. Hún er nú þegar orðin stórt nafn, bæði í heimalandinu og erlendis. Áður en hún hóf sitt eigið fyrirtæki fyrir tveimur árum, starfaði Louise m.a. fyrir hönnuðina Alexander McQueen, Sophia Kokosalaki og Jonathan Saunders. Hún hefur notið mikillar velgengni og meðal annars hefur verið fjallað um hönnun hennar í Vogue. Sjálf segir hún fatnaðinn vera listrænan með samansafn af fleiri stílum. "Ég ólst upp í Þýskalandi, Danmörku og Englandi. Öll þrjú löndin hafa haft áhrif á minn stíl og tilganginn í hönnuninni. Línurnar mínar eru stílhreinar og byggðar á miklum gæðum, sem skandinavísk hönnun er allajafna, en þær hafa samt hráan fíling sem ég hef fengið frá veru minni í London. Að sama skapi hef ég lagt mikla áherslu á tæknilegan bakgrunn, sem ég hef frá hönnunarskólanum í Düsseldorf." Útkoman er lína full af hreinum, einföldum og kvenlegum sniðum með mikið af hráum undirtónum.
Ole Yde
Hinn 29 ára gamli Ole Yde vann hönnunarverðlaun Illum árið 2005. Stuttu eftir það byrjaði hann að hanna kjóla fyrir einstaka kúnna. Síðasta haust sýndi hann í fyrsta sinn línu undir nafninu Yde. Einkennismerki hönnun hans eru vafalaust kjólar. "Mér líkar vel við kvöldfatnað, því ég elska fínar konur. Ég vil undirstrika kvenleika, af því hann getur fært konunni mikinn styrk. Einnig líkar mér hvað kjóll getur verið áhrifamikill, hann er meira um fagurfræði en praktík." segir Ole Yde. Lína síðasta veturs samanstóð af 25 kjólum, sem flestir voru stuttir kokkteilkjólar. "Það á að hafa gaman og drekka kampavín í kjólunum mínum." Hann notaði mikið efni eins og silkichiffon, "silki er mitt uppáhalds efni, af því það sýnir lúxus og það er falleg hreyfing í því." Línan var öll svört og hvít, "svartur hefur mikla möguleika og svartur kjóll getur t.d. borið fleiri pífur en rauður kjóll án þess að það verði of villt." Í sumarlínunni voru einnig pils og blússur þótt kjólarnir hafi verið áberandi. Aðspurður um innblástur segir hann gamlar kvikmyndastjörnur á borð við Audrey Hepburn, hönnun Georg Jensen og allt við Marie Antoinette hafa áhrif á sig.
Stine Goya
Stine Goya byrjaði ferilinn sem fyrirsæta og stílisti en útskrifaðist úr Central St. Martins í London árið 2005. Sem hluti af náminu vann hún hjá hönnuðunum Jonathan Saunders, Eley Kishimoto og Hussein Chalayan. Hönnun hennar hefur nú vakið umtal innanlands sem erlendis og birst í tímaritum á borð við Nylon, Glamour og Elle. Stíll hönnunarinnar er litríkur þar sem áhugaverð blanda af litum og munstrum spila stóran sess ásamt sniðum sem kalla fram óvenjuleg hlutföll. Vetrarlínan síðasta var mikið innblásin af jazzáhrifum þriðja áratugarins og 70s grafískum munstrum. Sumarlínan bar þó með sér léttari keim og aðeins nútímalegri hönnun, þótt litir og munstur hafi áfram verið aðalmálið.
Fyrir meiri danska hönnun, kíkið á dönsku tískuvikuna fyrir haust/vetur 08.
Meginflokkur: Hönnuðir | Aukaflokkur: Skór | Breytt 10.10.2008 kl. 16:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.