Ráð til að gera stílinn persónulegri

Það getur verið erfitt að gera stílinn sinn persónulegan þegar maður er undir áhrifum frá svipuðum fjölmiðlum, verslar fjöldaframleiddar flíkur og hefur kannski ekki hugrekki til að sýna sinn eigin stíl. Ég ætla því að gefa nokkur góð ráð, bæði hvernig sé best að fá innblástur, en einnig hvernig sé best að versla í verslunarkeðjum en persónugera stílinn í leiðinni.

Innblástur

- Fyrir það fyrsta, þá er nauðsynlegt til að ætla að hafa sinn eigin stíl, að skoða stílinn hjá öðrum. Fá innblástur frá fólkinu á götunni. Hægt er að fara inn á sérstakar götustíls bloggsíður, þar sem venjulegt fólk sem ljósmyndari telur hafa góðan stíl er myndað. Góðar síður er t.d. frá Stokkhólmi, New York og London.

- Fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á tísku er sniðugt að skoða sumar- og haustlínur hönnuða á netinu. Sýningar fyrir sumar næsta árs eru í september/október og sýningar fyrir komandi vetur eru í febrúar/mars. Góðar síður eru Style.com og Elle.com. Hægt er að fá góðar hugmyndir frá hönnuðunum og einnig hefur maður betri sens fyrir komandi trendum.

- Ríka og fræga fólkið hafa góðan aðgang að hönnunarmerkjum og tískusýningum og því oftast með puttan á púlsinum hvað tískuna varðar. Ef stjarnan sjálf hefur ekki nógu mikið tískuvit, er mjög líklegt að hún hafi stílista í vinnu. Hægt er að fá góðar hugmyndir frá fræga fólkinu, ekki endilega bara í sínu fínasta pússi á rauða dreglinum, heldur einnig dagsdaglega og þá geta stjörnubloggsíður komið að góðum notum.

- Fyrir þá sem hafa tíma og áhuga getur verið gott að rífa úr tímaritum myndir af því sem gæti veitt manni innblástur. Hægt er að hagræða því saman í svokallað ‘moodboard’, og skipta reglulega út myndum. Hönnuðir nota þessa aðferð til að skilgreina innblástur sinn fyrir nýja línu, en þetta er einnig góð aðferð til að sjá hverju maður er að leitast eftir í sínum eigin persónulega stíl.

- Ef allt það nýjasta og ferskasta bregst, getur verið gott að fá innblástur úr gömlum bíómyndum sem skarta kvikmyndastjörnum fyrri tíma á borð við Audrey Hepburn, Grace Kelly og Brigitte Bardot. Annað sem tengist ekki tísku en hefur samt ómetanleg áhrif á hana er tónlist. Allt frá tónlistarfólki á borð við Madonnu til Nirvana. Ef það er eitthvað annað sem hægt er að fá innblástur frá eru það önnur lönd og aðrir menningarheimar. Að fylgjast með hvernig fólk klæðist í mismunandi löndum og borgum er nauðsynlegt til að fá annan sens á hlutina. Hvort sem þú tekur það með þér heim eða ekki.

Verslanir

- Mjög gott er að vera búin að skoða hverju maður er að leita af. Þó skal varast að hugsa of mikið um tískustrauma, þeir geta oft verið skammlífir og eina og sama trendið virkar ekki alltaf fyrir alla líkamsvexti.

- Á hálfsárs til árs fresti er gott að fara í gegnum fataskápinn, þá helst áður en maður verslar sumar og vetrarfötin, hverju má henda, hvað á að geyma og hvað vantar.

- Besti tíminn til að versla er fyrir hádegi, en bæði er minnst að gera þá og einnig er fatnaðurinn vel raðaður og aðgengilegur. Þannig er meira næði, minna fólk, starfsfólkið frekar reiðubúið að aðstoða og fötin ekki í hrúgum eða liggjandi á gólfinu. Mestu örtraðirnar eru um helgar, þannig að ef ekki gefst tími til að fara í verslunarleiðangur fyrir hádegi á virkum dögum, virkar seinni parturinn alveg eins ágætlega.

- Flestar stærri verslunarkeðjur fá nýjar sendingar vikulega (stundum nokkrum sinnum í viku). Því er gott að spyrjast fyrir um í sínum uppáhalds verslunum hvenær nýjar sendingar koma inn, þá er hægt að tryggja sér það besta strax. Í vinsælum verslunum er gott rennsli á vörum, þannig ef maður sér eitthvað er oftast best að næla sér í það þá og þar. Taktu líka vel eftir því þegar stórar keðjur fá línur sem koma í fáum eintökum, þá eru minni líkur á að hitta einhvern í eins. Vertu viss um að skoða gæðin og ekki kaupa hluti bara af því þeir eru ódýrir. Þótt oft sé hægt að fá góð kaup á útsölum, er þar oft einungis að finna restar sem enginn hefur viljað.

- Í minni hönnunarverslunum koma sendingarnar ekki eins oft, en samt getur verið gott að hafa á hreinu hvenær stærstu sendingarnar og sumar/vetrarlínurnar koma. Þar sem minna rennsli er á vörum í þessum verslunum er hægt að koma oftar til að skoða og hugsa sig um áður en fjárfest er í dýrri flík. Einnig er gott ráð að grennslast fyrir um helstu merki og hönnuði og skoða línurnar á netinu áður en þær koma í verslunina, til að fá fíling fyrir hverju má búast. Stundum getur verið gott að vingast við starfsfólkið þannig það geti látið mann vita hvenær nýjar vörur koma.

radinnblasturverslanir

Í klukkuátt úr efri röð frá vinstri: Götustílssíður gefa góðar hugmyndir úr raunveruleikanum / Gamlar kvikmyndir sem prýða kvikmyndastjörnur á borð við Audrey Hepburn er góður innblástur / Besti tíminn fyrir verslanaleiðangur er fyrir hádegi á virkum dögum / Nauðsynlegt er að endurskipuleggja fataskápinn reglulega / Í hönnunarverslunum fær maður persónulegri þjónustu og þar sem vanalega er minna rennsli á vörum er hægt að taka sér meiri tíma í að ákveða sig áður en maður fjárfestir í dýrri flík / Að skoða stjörnurnar í casual dagklæðnaði gefur góðan innblástur / Aðrir menningarheimar geta oft gefið hugmyndir og látið mann prófa óvenjulega hluti / Hljómsveitin Nirvana er talin hafa byrjað hið vinsæla 'grunge' trend.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband