13.4.2008 | 17:22
Vinnufatnaður útfrá tískustraumum sumarsins
Nú þegar sumarið er að koma með nýjum straumum þá er ekki úr vegi að endurskoða fataskápinn og gera pláss fyrir ný sumarföt. Vinnufatnaður er eitthvað sem þarf einnig að skoða í þessu samhengi. Þar sem skápurinn fyllist oft af léttum sumarkjólum og pilsum á sumrin getur stundum verið snúið að finna vinnufatnað sem er léttur en einnig fagmannlegur.
Vinnustaðir eru jafn misjafnir og þeir eru margir og því mismunandi hvaða fatnaður er við hæfi í hverri stöðu. Ég mun gefa ýmsar hugmyndir og reyna að sýna ólíkar samsetningar svo allir geti fengið einhvern innblástur.
Það er þrennt sem er vert að fjárfesta í fyrir sumarið af nýju trendunum sem geta vel gengið sem vinnufatnaður. Það fyrsta eru þægilega víðar buxur, helst ökklabuxur, en þær eru algjört möst. Það er smart að þær séu svolítið slouchy, þ.e.a.s. liggja ekki þröngt að líkamanum, heldur leika um hann. Þótt að sniðið eigi að vera nokkuð vítt þarf að passa að þær sitji vel á mjöðmunum. Litirnir skulu frekar vera plain heldur en hitt svartur, navy blár, grár og beige koma þar sterkir inn. Buxur af þessu tagi eru fyrst og fremst þægilegar en bera samt sem áður með sér klassískan og fágaðan stíl. Bæði er hægt að vera í fallegum gladiator söndulum eða háum hælum við þessar buxur.
Annað sem mun vera heitt í sumar eru útvíð pils. Þau verða í nokkrum síddum, en hnésíð hæfa best hér. Ekkert of stutt og alls ekki of mikla vídd og rykkingar. Við viljum forðast of mikinn volume og leitumst frekar eftir pilsum sem bera fallega vídd. Þau koma best út ef þau sitja í mittinu til að gefa sem mestan kvenleika. Ef pilsið er dökkt ættu svartar sokkabuxur að vera í lagi við, en berir leggir eru samt alltaf flottastir við þessa tegund af pilsum. Til að jafna út hlutföllin passa aðsniðnir jakkar, hugsanlega frekar stuttir, vel við. Ef pilsið er of kvenlegt getur stuttur, hrár biker leðurjakki verið smart. Það skiptir ekki öllu hvað er klæðst að ofan, ef það er haft að leiðarljósi að það sé frekar þröngt til að spila á móti víddinni. Fyrir plain útgáfu, getur gengið ágætlega að girða hvítan hlýrabol ofan í svart pils og vera svo í stuttum, svörtum jakka sem er aðeins tekin í mittið. Háir hælar eru besti kosturinn hér, þar sem það verður athygli á skóna.
Þá er komið að efri partinum og því þriðja sem er vert að eigna sér fyrir sumarmánuðina er vesti. Þá er ég ekki að meina vestin sem hafa verið vinsæl hér á landi undanfarið, heldur eru þessi aðeins efnismeiri og mætti meira líkja við ermalausa jakka. Það getur verið mjög flott að nota þunnt belti í mittið eins og margir hönnuður gerðu, en einnig er í lagi að láta það vera aflíðandi svo það sýni ekki of miklar línur. Hlýrabolir ganga vel undir, en þar sem berir handleggir gætu verið of mikið af sýnilegu skinni þá er afbragðshugmynd að klæðast fallegum stuttermabol innan undir. Þá er annað hvort hægt að setja belti í mittið, hneppa eða hafa vestið opið. Engir sérstakir litir eru betri en aðrir, frekar þarf að huga að sniðinu.
Annað sem flestir ættu að eiga í skápnum eru léttar gollur, bæði síðar og styttri, sem passa sérstaklega vel við ökklabuxurnar. Plain hlýrabolir í ýmsum pastellitum eru einnig nauðsynlegir í skápinn ásamt stuttermabolum flott er að nota hlýrabolina lag yfir lag (layered). Hvað stuttermaboli varðar finnst mér persónulega allaf v-hálsmál smekklegast, það lengir hálsinn og gefur stílhreinna yfirbragð. Þeir eru tilvaldir undir fína jakka og passa nánast við hvað sem er. Veglegir sumarsandalar eitthvað sem allir ættu að eiga. Sandalar eiga það oft til að vera lélegir og því skiptir máli að velja þá vel. Gladiator sandalar verða vinsælir í sumar og er því sniðugt að fjárfesta í einu pari.
Aukahlutir skipta miklu máli þegar hugsað er um vinnufatnað. Þar sem skærir litir og framúrstefnuleg snið eru ekki vænlegur kostur fyrir skrifstofuna, þá geta statement aukahlutir gert gæfumuninn og poppað upp á klæðnaðinn. Dæmi um flotta aukahluti sem eru smart við plain liti og klassísk snið, eru gladiator hælar eða aðrir edgy skór. Töskur í skemmtilegum áferðum og litum koma einnig stórlega til greina. Penir skartgripir eru oft betri kostur en eitthvað áberandi og það hæfir betur á vinnutíma. Hins vegar er tilvalið að hafa ávallt eins og eitt stykki cuff armband og kokkteil hring tilbúið í töskunni fyrir drykki eftir vinnu eða önnur fínni tilefni.
Annað sem skiptir einnig miklu máli eru smáatriði á flíkunum og gæði þeirra. Falleg smáatriði og vel unnin handbrögð er eitthvað sem alltaf er tekið eftir.
Meginflokkur: Greinar | Aukaflokkur: Ráð | Breytt 10.10.2008 kl. 16:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.