8.4.2008 | 16:53
Tískuvikan í París
Mér finnst tískuvikan í París sú besta af öllum og þetta skipti var engin undantekning. Það er fyrir löngu orðin staðreynd að París er tískuborgin. Mörg elstu tískuhús heims sbr. Balenciaga og Lanvin, sýna, ásamt nýrri merkjum á borð við Viktor & Rolf og breska hönnuðurinn Stella McCartney. París er ábyggilega eftirsóttasta tískuvikan af hönnuðum til að sýna á og því koma þeir alls staðar frá. Það voru virkilega margar línur sem ég var hrifin af að þessu sinni og erfitt að velja bara nokkrar til að fjalla um. Dæmi um flotta hönnun sem ég mun ekki taka sérstaklega fyrir, var Alessandra Facchinetti fyrir Valentino, en eins og margir vita lét hann af störfum nýverið. Hún var undir svolitlu álagi frá tískuheiminum til að uppfylla kröfur tískuhússins, en hún stóð sig með prýði og tókst snilldarlega að yngja upp á hönnunina, ásamt því að halda svolítið í sögu hússins. Það voru því flestir sammála því að henni hefði tekist vel til. Einnig tókst lína Giambattista Valli einkum vel. Hugmyndin að litapallettunni, blóðlaus kona sem endar í ástríðu, kom vel til skila þar sem sýningin byrjaði í ljósum litum, fór svo yfir í svartan og endaði í rauðum tónum. Klassísku Giambattista Valli sniðin voru til staðar, með miklu volume á mjöðmum. Ein önnur lína sem vakti athygli mína var Sonia Rykiel. Bjartir litir, skemmtileg munstur og bros fyrirsætanna gáfu sýningunni mikið líf.
Nicolas Ghesquière hefur svo sannarlega stimplað sig inn á kortið í tískuheiminum sem hönnuður Balenciaga. Fyrir haustlínuna leitaði Nicolas í innblástur frá spænskri menningu í bland við film noir kvikmyndir. Einnig hélt hann í vísindalega fílinginn sem hann hefur unnið með í síðustu línum. Þar koma latex, plastefni og framúrstefnuleg snið sterk inn. Skartið, sem var í mjög miklum glamúr stíl, spilaði skemmtilega með ólíkum stefnum. Spænski innblásturinn var þó viðeigandi því Cristóbal Balenciaga, stofnandi tískuhússins, var spænskur og því við hæfi að heiðra upprunann. Í línunni mátti sjá flott munstur sem Nicolas sagði vera eldri hönnun Cristóbal.
Í fararbroddi Balmain er hönnuðurinn Cristophe Decarnin. Hann sagði línuna fyrir haustið vera rokkara- og pönkaralegri en fyrir sumarið. Línan var frjálsleg með leðri, glitri og glans, hlébarðamunstri og stuttum partýkjólum. Fatnaðurinn bar yfir sér ferskan og unglegan anda og mátti jafnvel gæta ýmissa hippaáhrifa í bland við rokkið. Það krefst hugrekkis að klæðast áberandi munstrum og glitri og því er klæðnaðurinn ekki fyrir íhaldssama, þótt inn á milli hafi reyndar sést í einstaka svartan kjól og plain jakka aðallega til að spila á móti öllu rokkinu.
Út í aðeins meiri kvenleika, lína Chloé innihélt mikið af chiffon efni, oft svo þunnu að það var gegnsætt en einnig voru notuð nokkur lög og þá voru bróderingar algengar sem skreytingar. Aðallitur sýningarinnar var navy blár í bland við listræn blómamunstur í svolitlum gamaldagsstíl. Svíanum Paulo Melim Andersson tókst enn og aftur að gera kvenlega línu en með þægilegum sniðum og listrænum og skemmtilegum smáatriðum.
Emanuel Ungaro lét af störfum árið 2001 og Peter Dundas tók við. Nú hefur hins vegar aftur orðið breyting og hinn ungi og efnilegi Esteban Cortazar orðinn hönnuður merkisins. Þrátt fyrir þekkta litagleði Emanuel voru litirnir að þessu sinni fölir með undantekningu frá skærbleikum og dökkgráum. Munstrin voru sérlega falleg og grófar prjónafléttur gáfu tóninn fyrir prjónaflíkur línunnar. Jersey efni voru oft fallega rykkt og útkoman voru draumleg snið. Að öllu jöfnu tókst línan að mínu mati afburða vel miðað við hversu mátti búast í fyrstu línunni.
Lína Givenchy sem Riccardo Tisci hannar, var í stuttu máli dökk rómantík með svolitlum goth áhrifum. Það sem Riccardo hafði þó í huga við gerð línunnar voru ferðalög hans til Suður Ameríku. Við nánari skoðun kom í ljós að víða mátti geta innblástursins í flamenco dönsurum, nautabönum og kaþólskri trú. Þessi áhrif voru þau kannski einna helst í smáatriðum og aukahlutum. Klæðnaðurinn var að mestu klæðskornir jakkar og kápur og leðurbuxur í svörtu til móts við kvenlegra og rómantískra blússa. Fullkomnar samsetningar frá mismunandi áhrifum.
Meistari Alber Elbaz hefur gert undurfagra haustlínu fyrir Lanvin, eins og við var að búast. Línan var mjög svört og léku áferðir stórt hlutverk. Lakk, leður, loðfeldir, ruffluð efni og svo skreytingar á borð við perlur og glitrandi steina. Fyrir utan svarta litinn voru aðrir litir mest í jarðtónum. Að mínu mati voru kjólarnir það besta við sýninguna, þeir voru í nokkrum útgáfum: fyrst voru þeir elegant í klassískum sniðum; stuttir kokkteilkjólar úr efnastrimlum í fallegum litum tóku svo við; næst komu kjólar í lausari sniðum í gyðjustíl sem minntu á snið sumarlínunnar; sýningin endaði svo á dramatískari kjólum sem voru ýmist alskreyttir glitri eða glansefni í silfur og svörtu.
Lína Nina Ricci einkenndist af fallegum haustlitum litir nýfallinna laufblaða og draumkennd munstur í fallegu silki og chiffon og öðrum penlegum efnum. Olivier Theyskens, hönnuðurinn, sem hefur leitt merkið í gegnum talsverðar breytingar á þeim tíma sem hann hefur verið við stjórnvöllinn, sagði línuna að þessu sinni vera svolítið skrýtna og ljóðræna, og ekki dökka. Í fyrstu komu fyrisæturnar fram á sýningarpallinn klæddar í aðsniðnar buxur, blússur og jakka allt í frekar lausum sniðum en svo voru það stuttir kjólar, áfram nokkuð víðir, en jakkarnir grófari, sem prýddu pallinn og að lokum síðkjólar. Í þessu öllu saman mátti gæta svolítilla rómantískara-, og eins og hönnuðurinn segir sjálfur, ljóðrænna áhrifa.
Þrátt fyrir að hönnuðurnir Raffaele Borriello og Julien Desselle séu einungis að sýna í annað sinn fyrir merkið Requiem, hafa þeir góða reynslu úr tískubransanum. Haustlínan sýndi gott merki um reynslu þeirra þar sem gæði, smáatriði og klæðskurður var til fyrirmyndar og ef til vill var svolítill hátískubragur yfir sýningunni. Það sem mér fannst áhugaverðast við línuna, var að þrátt fyrir að flíkurnar bæru merki um listræna hönnun voru þær samt vel klæðilegar.
Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt hvað Stella McCartney tekur tískuna ekki of alvarlega. Það er alltaf léttleiki yfir línunum hennar og ekkert þvingað. Sniðin þægilega víð, munstrin skemmtileg og flíkurnar flögra á fyrirsætunum. Litirnir voru ekki mjög áberandi í þetta skiptið, fölgrár og svartur en munstur skipuðu stóran sess. Stella heldur sig inní sínum ramma og hennar föstu liðir eins og peysukjólar, swing kápur í hálfgerðum kúlusniðum og allar kósý prjónaflíkurnar sem eru hennar svar við loðfeldum, voru á sínum stað.
Flokkur: Tískusýningar | Breytt 10.10.2008 kl. 16:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.