Færsluflokkur: Trend

Gegnsætt

sheerGegnsæja trendið síðan í sumar er enn jafnvinsælt nú í vetur, og sást það einnig á sýningarpöllum fyrir næsta sumar. En það birtist þó ekki í alveg sama stíl og í liðnu sumri. Á meðan gegnsæju flíkur sumarsins voru léttar og ljósar eru vetrarflíkurnar dökkar og oft með smá blúndu og öðru skrauti. Það er því allt í svolítið dimmari tón en áður.

Það getur verið gaman að leika sér með útfærslur á gegnsæju efni, en vanda skal valið innan undir. Sumir láta sjást í brjóstahaldari, en það þarf þó að gera það á fágaðan hátt. Fyrir þá sem þora ekki í það getur innanundirflík í skærum lit gert hlutina svolítið spennandi. Einnig er flott að klæðast gegnsæja efninu innan undir og láta það svo koma undan annarri flík. Það eru margir möguleikar í boði og um að gera að prófa mismunandi útgáfur af trendinu.

gegnsaett


Pallíettur og glanssteinar

Pallíettur eru mjög áberandi núna, þá sérstaklega í kringum hátíðirnar. Þær eru nokkuð áberandi á buxum, enda fá buxur yfir höfuð mikla athygli þessa árstíð, en það er svolítið öðruvísi nálgun á pallíettutrendið. Það var þó einnig mikið um glamúr pallíettukjóla og svo komu jakkar með pallíettum og glyssteinum líka sterkir inn, en þeir eru töff við einfaldan stutterma-/hlýrabol og fínar svartar buxur.

Pallíetturnar komu í allskyns útgáfum. Sumar flíkur voru þaktar meðalstórum pallíettum eða öðrum glitrandi steinum: pallíetturnar voru litlar og hógværar í smáatriðum; og þær sáust líka stórar og áberandi á chiffon efnum. Það var svolítið ferskt að sjá þær svona stórar en Christopher Kane byggði sína línu mikið á þeirri tegund. Pallíettuflíkur eru voða fínar en margar vintage verslanir bjóða uppá mjög gott úrval af skrautlegum pallíettutoppum og kjólum.

palliettur 

palliettur2


Gallabuxur frá strákunum

dknyss09Gallabuxnatrendið sem hefur verið mjög vinsælt í haust og nú áfram fram í veturinn eru kærastagallabuxur (boyfriend jeans). Stjörnurnar hafa verið að klæðast þessu trendi mikið en það er Katie Holmes sem hefur þó verið duglegust að klæðast þeim. Fjölbreytileikinn er allsráðandi því þær stjörnur sem hafa sést í buxum sem þessum eru af öllum aldri og hafa þær bæði klæðst þeim við flatbotna skó sem og flotta hæla. Þar sem buxurnar eru brettar upp frá ökklanum er best að velja skóna vel þar sem þeir verða vel sýnilegir.

Til að vinna þetta trend þurfa nokkrir hlutir að vera á hreinu. Buxurnar þurfa að vera svolítið snjáðar og í víðari kantinum, en þurfa þó að passa vel um mjaðmirnar. Hvort sem buxurnar eru of síðar eða ekki, er svo aðalmálið að bretta aðeins uppá þær að neðan. Þótt sniðið sé oftast beint (eins og t.d. Levis 501), fer ekki öllum að vera í beinum gallabuxum og þá er bara að reyna að finna par sem er aðeins aðsniðara.

bfgallabuxur


Kjólatrendin fyrir jólin

Þegar jólin nálgast fara allir að leita sér að hinu fullkomna jóla- og áramótadressi, sem er oftar en ekki glamúrkjóll. Jólafatakaupin verða samt eflaust með öðru sniði í ár en fáður, það tíma líklega fáir að kaupa sér rándýran hönnunarkjól. Ódýrari verslanir bjóða upp á fína kjóla á oft ágætu verði, en annars er líka hægt að sjá hvað maður á í skápnum. Ef á að nota eitthvað sem fyrir er til, skipta réttu aukahlutirnir öllu máli. En kjólar komu í ýmsum gerðum á sýningarpöllum fyrir veturinn sem er að líða og hér munu verða sýndar hugmyndir að kjólum í sambandi við liti, skraut og snið.

Dökk rómantík

Eitt af því sem var mest áberandi var svartur. Þótt margir leiti eftir kjól í einhverjum lit, getur svartur kjóll verið virkilega áhugaverður og voru þeir það almennt með öllu gothinu og dökku rómantíkinni fyrir veturinn. Það er best að einbeita sér frekar að rómantísku hlið gothsins og leyfa leðri og leðurlíki að eiga sig, allavega yfir jólin – áramótin eru svo annar liður. Svartur kjóll með annaðhvort blúndusmáatriðum eða gegnsæju efni að hluta til er tilvaldið fyrir þetta lúkk. Einnig er hægt að klæðast einföldum svörtum kjól við blúndusokkabuxur. Yfir áramótin er þess vegna hægt að skipta blúndusokkabuxunum út fyrir leðurlíkisleggings. Ef kjóllinn er ermalaus er blazer jakki góður yfir, sérstaklega jakkar með silki eða öðru svipuðu efni í kraganum.

 svart

 

Sterkir litir

Eins og alltaf var þó nokkuð af fallegum og líflegum litum á pöllunum. Litirnir sem eru að gera sig í þetta skiptið eru sterkir bleikir, fjólubláir, grænir og djúpblár, en gulur var einnig áberandi. Því miður getur gulur oft misheppnast svolítið og því fer það algerlega eftir sniðinu hvort það virki. Fjólubláir verða líklegast vinsælastir en flottastir að mínu mati eru dekkri tónar af fjólubláum í stað þess skæra sem er búin að vera vinsæll. Silkikjóll undirstrikar áberandi liti vel, þannig fallegur kjóll úr silki í nánast hvaða lit sem er hentar vel. Sniðið þarf ekkert að vera flókið, kjóll sem er passlegur að ofan en heldur svo áfram beint niður er klæðilegur, þar sem silki hentar ekki alltaf aðsniðið. Annar möguleiki er að láta áhersluna vera á smáatriði á borð við rufflur, rykkingar o.þ.h. í stað efnisins, eitthvað sem gerir kjólinn meira spennandi.

 litir

 

Glamúr

Þriðja trendið hentar líklega betur yfir áramótin en er alveg eins hægt að tóna niður fyrir jólin. Hér eru það pallíettur og glanssteinar sem sýna glamúrinn. Kjóllinn þarf ekkert endilega að vera þakinn pallíettum eða öðru álíka, heldur getur oft verið flott þegar skreytingin er aðeins á hluta kjólsins. Annar möguleiki eru pallíettuleggings við lágstemmdari topp sem nær niður á ofanverð lærin. Persónulega finnst mér navybláar pallíettur miklu flottari en pallíettur í silfri eða gull. Þær geta orðið svolítið 'cheap', en navyblár ber yfir sér einhverja fágun, auk þess sem navybláar pallíettur voru mjög áberandi á sýningarpöllunum. Einnig er flott að klæðast pallíettukjól með blöndu af lituðum glanssteinum. Litaðir steinar gefa ennþá meira líf í glitrið.

glamur 

.

Kíkið í vintage búðir sem eru stútfullar af pallíettukjólum, en verslanakeðjur eins og Warehouse, Topshop, Zara, Oasis, All Saints eru góðar fyrir svipuð trend á góðu verði.

P.S. Ég mun blogga daglega fram að áramótum, þannig verið viss um að kíkja daglega fyrir nýja tískuumfjöllun! Einnig vil ég hvetja alla til að skrifa athugasemdir við færslur og segja sína skoðun, hvort sem hún er með eða á móti en einnig er velkomið að koma með spurningar eða einfaldlega hvað sem er :)


Götótt og tætt

Stundum verða ótrúlegustu trend vinsæl. Fyrir nokkrum árum voru snjáðar og götóttar gallabuxur í frekar ljósum þvotti, vinsælar. Þannig buxur hafa ekki sést í tískuheiminum í þónokkurn tíma, en núna með komu grunge tískunnar er götótt orðið heitt. Þó alls ekki í sömu mynd og áður. Það má segja að Alexander Wang og Maison Martin Margiela hafi komið bylgjunni á stað, Wang með götóttum, þunnum sokkabuxum og Margiela (sem er þekktur fyrir spes hönnun) með gallabuxur sem eru tættar að framan.

Trendin eru vinsæl hjá fólki sem aðhyllist frekar hráan stíl og hafa fyrirsætur á borð við Erin Wasson og Agyness Deyn sést í tættum gallabuxum. Sokkabuxur með götum og lykkjufalli að hætti Wang sjást oftar en ekki á tískubloggurum. Útfrá þessum trendum hefur einnig borið á leggings með lárettum útklippum á hliðunum, en fyrirsætan Anja Rubik, hefur m.a. sýnt þá útgáfu.

Það sem er best við allar útgáfurnar; buxurnar, leggingsarnar og sokkabuxurnar, er að allt þetta er hægt að framkvæma heima hjá sér með flíkina og skæri að vopni. Buxurnar eru kannski flóknasta verkefnið, en sokkabuxurnar ættu ekki að vera erfiðar í framkvæmd. Mig grunar að einhverjum finnist götóttar sokkabuxur einfaldlega ekki töff, en með þykkum sokkum, ökklaháhælum skóm og þykkri prjónapeysu/víðri skyrtu er lúkkið tilbúið. Bætið við beanie húfu og biker jakka fyrir aukatöffaraskap, a la Wang.

buxur

 leggings

 sokkabuxur

 


Bleklitir

Það verður þónokkuð um sterka liti í blektónum í vetur. Það eru litir eins og blár og fjólublár í ýmsum litbrigðum en allir sterkir og líflegir. Þeir sáust mest á fínni klæðnaði úr efnum eins og silki, enda undirstrikar silkið sterka liti á borð við þessa einkar vel. Litirnir bera yfir sér ríkmannlegan lúxusfíling, enda blár löngum verið talin litur konunga. Þegar þessir litir eru klæddir við svart, getur útkoman verið mjög flott þótt sumum finnist svartir og bláir litir ekki eiga saman. Bleklitir eru annars alveg tilvaldir fyrir jóladressið enda mjög sparilegir.

bleklitir

Lúxus bohemian

Hippatrendið í lúxusbúningnum heldur áfram þennan veturinn. Munstrin eru þjóðleg, helst innblásin af Austur-Evrópulöndum og sniðin í 70’s áhrifum hippaáranna. Með þessu trendi koma svo rússkinskögur skór- og töskur, loðfeldar af ýmsu tagi og svo metalskreytt belti.

Gucci línan var heltekin af öllu þessu, en þar er lúxusinn mikill til að lúkkið verði ekki of sveitalegt. Gucci er þekkt fyrir kynþokkafulla hönnun og því kom línan mörgum á óvart, en fyrirsæturnar klæddust þó töff ökklaskóm með metalhnöppum (studs) og náðu þeir að gera hippalúkkið rokkaðra.

boholuxus
boholuxus2

Köflótt

Köflótt er að tröllríða öllu um þessar mundir og er það eitt af aðaltrendum komandi vetrar. Það kom í öllum útgáfum sem hugsast getur; munstrið var bæði lítið og stórt, það minnti ýmist á skosk hálönd eða rokktímabil Nirvana og sást á kápum og skyrtum sem og buxum og pilsum. Það er allavega ekki erfitt að verða sér úti um eins og eitt stykki köflótta flík í vetrarinnkaupunum.

Þegar kemur að köflóttum skyrtum ber að forðast þröngum útgáfum í kántrý/kúrekastíl, mér finnst allavega flottast þegar skyrtur koma við sögu að þær séu svolítið víðar og að munstrið sé svolítið stórt. Ég kýs frekar dekkri köflótt munstur í stað æpandi lita, og finnst mér flottara þegar þetta trend er í svolitlum grunge stíl. Það er samt svo mikið úrval að það er um að gera að finna réttu köflóttu flíkina til að lúkka vel í vetur.

koflott

Buxur vinsælar í vetur

Buxur gera svolítið ‘comeback’ þetta haust og eru þær í allskonar sniðum og gerðum. Buxnasniðin eru mörg svolítið nýstárleg, blanda af harem buxum og ökklabuxum. Þær eru svolítið víðar í sér en eru rúmastar um mjaðmirnar og koma svo í bogalínu (bananaformaðar) niður leggina. Þótt þær hafi oft verið sýndar í ljósum litum á sýningarpöllum, fara svartar flestum betur þar sem þær vilja oft gera lærin stærri en þau eru. Það er því nauðsynlegt að vera í einhverju frekar aðsniðnu að ofan og alls ekki stórum og klunnalegum jökkum.

buxur
buxurstill
.

Í þrengri sniði eru níðþröngar teygjubuxur í munstri eða svörtu leðri – sem mætti líkja við leggings. Þetta snið kemur í stað þröngu gulrótagallabuxnanna og getur verið flott að skipta þeim út fyrir öðruvísi niðurmjóar buxur úr flottu efni. Það er allavega bókað mál að þröngar leðurbuxur/leggings verða mjög heitar í vetur og ættu allir sem hafa vaxtarlagið, að klæðast þeim við víðari toppa og stutta kjóla úr léttum efnum, t.d. blúndu.

ledurbuxur
ledurbuxurstill

Blúnda

Miuccia Prada setti hreinar línur fyrir komandi vetur þegar hún sendi út fyrirsætur í hverri blúnduflíkinni á fætur annarri. Það er ekki einu sinni hægt að ýminda sér hversu mikið efni af blúndu verði notað í Prada flíkurnar en það verður ekki lítið. Blúndan verður stórt trend en hún verður aðeins öðruvísi en við höfum þekkt hana. Burt með dúllulegar og ræfilslegar blúndur, því þær sem verða heitastar eru svartar og er blúndumunstrið stórt og áberandi.

Prada sagði um sýninguna að henni hafi í raun aldrei líkað vel við blúndur, en henni fannst þær mikilvægar konunni og ákvað að sjá hvort hún gæti gert þær nútímalegar. Aðrir hönnuðir fylgdu einmitt fast á hæla hennar, þó þeir hafi ekki tekið það eins bókstaflega. Blúndan birtist mest á kjólum og oft bara á ermunum eða efri partinum. Þeir sem vilja rétt svo dífa tánni ofan í geta svo fengið sér svartar blúndusokkabuxur, sem mega þó ekki vera með of litlum blúndum, við svartan minikjól og stóra chunky ‘demants’hálsfesti.

blunda

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband